Mjallarkirtill
Mjallarkirtill er falleg fjölær laukplanta sem virðist nokkuð harðgerð. Hann tilheyrði áður ættkvíslinni Zigadenus, en allar tegundir þeirrar ættkvíslar, fyrir utan eina, hafa verið fluttar í ættkvíslina Anticlea. Öll plantan er eitruð og heitir á ensku því óaðlaðandi nafni "mountain death camas". Nafnið er dregið af því að laukarnir líkjast matlaukum og laukum indíánalilju, Camassia, en eru mjög eitraðir og drógu marga landnema í vesturríkjum Bandaríkjanna til dauða þegar þeir voru teknir í misgripum fyrir æta lauka. Laufið er einnig eitrað og getur dregið búfénað til dauða, en það líkist mjög grasi. Hann vex best í sól í vel framræstum, sendnum, rökum jarðvegi sem má vera kalkríkur. Hefur lifað hjá mér síðan 2017 og blómstrar á hverju ári frá síðari hluta júlí fram í ágúst.