'Rauði risinn' varð til í garði Ólafs Björns Guðmundssonar heitins lyfjafræðings, sem sjálfsáður angi sem hann einhverra hluta vegna reytti ekki í burtu. Hann skrifaði skemmtilega frásögn af þessum fundi í Garðyrkjurit Garðyrkjufélags Íslands og deildi fræi af honum með félögum garðyrkjufélagsins. Þaðan eru mínar plöntur fengnar. Hann er ekki alveg fræekta, það er smá breytileiki á milli plantna, en allar eiga þær sameiginlegt að verða mjög hávaxnar, um og yfir 150 cm. Það er töluvert hærra en aðrir vatnsberar, sem verða varla meira en meter á hæð. Blómliturinn er lika óvenjulegur, fallega rauðbleikur, en mis dökkur á milli plantna. Hann á það til að sá sér svolítið eins og aðrir vatnsberar og á meðal afkomenda hans er fölbleik planta sem ég nefndi 'Blushing Giant' og planta með fylltum blómum sem var virkilega falleg, en ég tapaði í flutningnum.