Gulllotkarfa, eða bara lotkarfa, er ættuð frá Himalajafjöllum eins og aðrar tegundir þessarar ættkvíslar. Svölu sumrin hér á landi henta þeim vel, en þær þurfa mjög vel framræstan jarðveg því blautir vetur eiga ekki alveg eins vel við þær. Plantan mín hefur þó þrifist ágætlega hingað til. Hún vex í gæða garðmold blandaðri með fínum vikri á stað þar sem hún fær sól yfir hádaginn. Hún blómstraði í fyrsta sinn sumarið 2019, um miðjan júní, og var stórkostlega flott í blóma. Ég fékk þessa plöntu frá Guðrúnu og við vorum í nokkrum vafa um hvort þessi planta væri lotkarfa eða hélulotkarfa. Eftir mikið gúggl hallast ég að því að þetta sé frekar lotkarfa út frá laufblöðunum. Samkvæmt upplýsingum á FB síðu grasagarðsins í Tromsö er þetta nokkuð breytileg tegund sem getur myndað blendinga við tegundir í ættkvísl skjaldblóma, Ligularia.
top of page
bottom of page