Kákasusalpafjóla
Kákasusalpafjóla er smávaxin skógarbotnsplanta með dökkgrænt, silfurmynstrað lauf og bleikum blómum. Hún blómstrar síðvetrar eða snemma vors eftir því hvernig veðurfarið er. Þetta er skógarbotnsplanta sem vex í gisnum skógum í mjög lífefnaríkum jarðvegi. Það þarf því að blanda laufi og safnhaugamold í jarðveginn á sumrin þegar laufið hefur visnað og það er líka gott að hreykja laufi yfir að hausti til að skýla yfir vetrarmánuðina, því það er misjafnt hversu mikil snjóþekjan er. Ég ræktaði nokkrar plöntur af fræi og hafði þær inni í gróðurhúsi fyrsta veturinn. Í fyrra haust plantaði ég einni plöntu út í beð, en ákvað að hafa hinar áfram inni, því þær eru enn mjög smáar. Mér til mikillar gleði kom þessi planta blómstrandi undan snjónum núna í mars og vonandi á hún eftir að lifa áfram.