
Brúngresi er nokkuð ólíkt öðrum blágresistegundum sem eru í ræktun hér. Blómin eru frekar smá og í mjög sérstökum vínrauðum lit með hvítri miðju. Laufið er matt og hrukkótt með rauðbrúnum hring sem er frekar ógreinilegur á mínum plöntum, en mjög áberandi á yrkinu 'Samobor'. Það er harðgert og gerir engar sérstakar jarðvegskröfur. Það sáir sér nokkuð svo best er að klippa blómstönglana eftir blómgun. Skemmtilega öðruvísi planta.