Gulsól er harðgerð fjölær planta sem sáir sér töluvert. Hún er þó ljómandi falleg með sín gulu eða ljósappelsínugulu blóm. Hennar kjöraðstæður eru hálfskuggi í hlutlausum eða veiksúrum, frekar grýttum og rökum jarðvegi. En þar sem hún er mjög harðgerð, þá getur hún vaxið við flest skilyrði.
Gulsól var upphaflega flokkuð í ættkvísl draumsóleyja, Papaver, en síðar færð í nýja ættkvísl, Meconopsis. Síðar bættust fleiri tegundir frá Asíu í Meconopsis ættkvíslina, blásólirnar, sem eru nú einkennisplöntur þeirrar ættkvíslar. Nýlegar genarannsóknir hafa nú sýnt fram á að gulsólin er ekki skyld öðrum tegundum í Meconopsis ættkvíslinni, heldur eigi frekar heima í Papaver ættkvíslinni.