Sumarhnoðri
Sumarhnoðri tilheyrir hópi hnoðra sem skipað hefur verið í sér ættkvísl af sumum grasafræðingum, ættkvíslina Hylotelephium. Það virðist þó ekki vera eining um þennan klofning frá Sedum ættkvíslinni, svo ég held honum hér með hnoðrunum, enn um sinn a.m.k. Þetta er lágvaxin planta með uppréttum stönglum sem geta náð ca. 20-30 cm hæð. Laufið er grágrænt og blómin purpurarauð. Hann er þokkalega harðgerður, en er þó ekki hrifinn af mikilli vetrarbleytu og getur farið illa ef vatn rennur ekki nægilega vel frá honum. Hann vex í hálfskugga hjá mér og blómstrar árvisst, en kann örugglega best við sig á sólbökuðum stað í sendnum, vel framræstum jarðvegi.