Garðaára
Garðaára er blendingur silkiáru (Sidalcea malviflora) og annarra tegunda. 'Rosaly' er afbrigði sem ég ræktaði af fræi frá Jelitto. Það er ekki alveg fræekta, það er smá breytileiki í blómlit, en þó eru allar plönturnar með blómliti í ljósum bleikum litatónum. Hún virðist ágætlega harðgerð, hún hefur vaxið úti í garði hjá mér síðan 2017 og blómstrað á hverju hausti. Hún byrjar yfirleitt að blómstra um miðjan ágúst og stendur í blóma þar til veturinn gengur í garð. Létt næturfrost hafa engin áhrif á hana. Blómstönglarnir eru nokkuð sterkir, en þó borgar sig að binda hana upp því haustlægðirnar geta barið blómstönglana niður.