Garðaskeið
Skeiðarblóm, Tradescantia, er ættkvísl sem inniheldur nokkrar tegundir sem voru algeng stofublóm þegar ég var krakki, t.d. skeiðarblóm (gyðingurinn gangandi), T. fluminensis, vögguskeið (tvíburar í vöggu), T. spathacea, purpuraskeið (bláa dísin), T. pallida, og sebraskeið (bróðir gyðingsins, randagyðingur), T. zebrina. Ég rakst á sebraskeið til sölu í Garðheimum fyrir nokkru, svo þau eiga kannski eftir að ná fyrri vinsældum aftur. Tradescantia x andersoniana er garðablendingur af T. virginiana (meyjarskeið) og fleiri tegundum, svo mér fannst við hæfi að nefna hana garðaskeið, úr því hún er ekki skráð í íðorðasafn HÍ. Ég ræktaði þessa plöntu af fræi fyrir mörgum árum síðan, sennilega 2007 eða 2008, og hún lifði ágætlega, en mér fannst hún helst til spör á blómin, svo ég henti henni. Ég hefði kannski mátt sýna henni aðeins meiri þolinmæði. Hún þarf frekar sólríkan stað og kann best við sig í lífefnaríkum, vel framræstum, frekar rökum jarðvegi. Hún blómstraði um miðjan ágúst, sem á þeim tíma var frekar seint, því þá var yfirleitt búið að frysta hressilega fyrir miðjan september.