Upprunalega nafn 'Polareis' er 'Ritausma' og sennilega er réttara að nota það nafn, en ég hef haldið mig við 'Polareis' nafnið af því ég á líka 'Polarsonne' og finnst eitthvað skemmtileg tenging þarna á milli. Skv. heimildum á HelpMeFind varð 'Ritausma' til í Lettlandi 1963 og barst þaðan til Rússlands, þaðan sem hún barst svo til Strobel í Þýskalandi. Einhversstaðar á leiðinni týndist nafnið á rósinni og Strobel skráði hana 1991 undir nafninu 'Polareis'. Sama ár skráði Strobel einnig rósina 'Polarsonne'.
Hvort nafnið sem er notað, þá er þetta nokkuð harðgerður og gróskumikill ígulrósarblendingur sem blómstrar léttilmandi, fölbleikum blómum. Blómin eru í stórum klösum og svolítið drúpandi þannig að það getur tekið runnann nokkur ár að standa undir blómunum þannig að þau njóti sín til fulls. Hún hefur reynst vel hjá mér, blómsæl og falleg. Þyrnarnir á henni eru svakalegir svo það þarf viðeigandi hlífðarfatnað ætli maður að snyrta hana til.