Gallica rós - Frankfurt rós
'Agatha' er gömul gallica rós af óþekktum uppruna sem komin var í ræktun fyrir 1818. Hún er talin vera blendingur kanilrósar (Rosa cinnamomea) og Rosa gallica. Ég þekki ekki þessa rós af eigin raun. Myndin er frá Kristleifi, en það var ekki komin reynsla á hana hjá honum 2009 þegar ég fékk allar rósamyndirnar frá honum. Samkvæmt erlendum harðgerðiskvörðum er hún þokkalega harðgerð og ætti að geta þrifist hér í þokkalegu skjóli.
Þessi rós er ein af gallicu rósunum sem hafa verið kenndar við Rosa x francofurtana, en sú tenging er hálf óljós. Frankfurtrósir eða skáldarósir eru gallica rósir. Það sem greinir þær frá öðrum gallica rósum er að þær eru heldur hávaxnari með grófgerðara laufi og þær eru heldur harðgerðari.