Nútíma runnarós (Modern Climber)
'Aloha' er dásamlega falleg rós sem er flokkuð sem nútíma klifurrós (modern climber), þó hún líkist ekki klifurrós á nokkurn hátt ef hún vex utandyra hér á landi. Blómin líkjast mjög blómum terósablendinga, enda er annað foreldrið terósablendingurinn 'Mercedes Gallart'. Hitt foreldrið er klifurrósing 'New Dawn'. Blómin eru bleik með ferskjulitaðri miðju og mig minnir að þau hafi verið ilmandi. Það er orðið nokkuð langt síðan ég átti þessa rós. Hún óx úti undir suðurvegg í nokkur ár. Ég pakkaði henni vel inn fyrir veturinn, vökvaði hana með volgu vatni og hvolfdi plastpoka yfir hana í maí til að gera henni lífið aðeins bærilegra og hún launaði dekrið með örfáum blómum. Ég gæti trúað að hún sé stórkostleg í gróðurhúsi.