Nútíma runnarós (Modern Shrub)
'Bonica' er yndislega falleg nútíma runnarós sem blómstrar bleikum blómum í stórum klösum. Blómin lýsast með aldrinum svo blómklasarnir eru í breytilegum litbrigðum af bleikum eftir því sem blómin springa út. Þau ilma lítið sem ekkert. Þessi rós var ræktuð af Marie-Louise Meilland og Jaques Mouchotte í Frakklandi árið 1981. Hún er afkvæmi af klifurrósablendingi (Rosa sempervirens x 'Mademoiselle Marthe Carron) og klasarósinni 'Picasso'. Hún verður ekki mjög hávaxin utandyra hér á landi, en í gróðurhúsi koma klifurrósagenin í ljós og getur hún orðið 1,5 m á hæð. Blómstönglarnir eru ekki sterkir og hún þarf klifurgrind. Utandyra þarf hún vetrarskýlingu og besta stað í garðinum. Hún blómstraði nokkuð árvisst hjá mér í gamla garðinum mínum, lifði flutninginn 2013 af, en blómstraði ekki aftur fyrr en 2017. Hún er þó enn hálf veikluleg og blómgunin hefur verið mjög takmörkuð.