Klasarós (Floribunda/Polyantha)
Bandaríski rósaræktandinn Eugene S. Boerner ræktaði rósina 'Masquerade' með víxlfrjóvgun tveggja floribunda klasarósa, 'Goldilocks' og 'Holiday' og var hún sett á markað 1949. 'Masquerade' var fyrsta rósin sem skiptir lit eftir því sem blómin eldast og var því mikið notuð í kynbótum. Blómin opnast gul með bleikum jöðrum og bleiki liturinn breiðist svo út og dökknar þar til blómið verður rauðbleikt. Þessi litabreyting er háð sólskini og góðum lofthita, svo blómin verða fölari á haustin. Það er því mikilvægt að gróðursetja hana þar sem sólar nýtur megnið af deginum og skjólið er gott, svo það hlýni vel í sólinni. Hún er frekar viðkvæm og þarf vetrarskýlingu til þess að lifa veturinn. Það er þó ekki víst að hún lifi og blómstri vel utandyra þrátt fyrir ofangreindar ráðstafanir og hún nýtur sín því best í gróðurhúsi. Mín rós lifði í nokkur ár og blómstraði alltaf eitthvað, svo hún er ein af þeim klasarósum sem ég hef prófað sem dugðu hvað lengst úti í beði.
Hér má sjá breytingar á sama blóminu með nokkurra daga millibili í ágúst 2006:
Ég tók þessa mynd í garð Kristleifs Guðbjörnssonar árið 2009. Hvað hann gaf rósinni til að ná þessari stærð veit ég ekki, en hvað sem það var, þá virkaði það vel.