Nútía runnarós (Modern Shrub)
'Maigold' er nútíma runnarós sem var ræktuð af Reimer Kordes í Þýskalandi 1953. Hún er afkomandi floribunda klasarósarinnar 'Poulsen's Pink' og þyrnirósarblendingingsins 'Frühlingstag'. Hún blómstrar appelsínugulum blómum, sem fölna með aldrinum og verða föl apríkósugul. Hún verður nokkuð hávaxin, getur náð 1,5 metrum og þarf stuðning. Hún þarf sólríkan, skjólgóðan vaxtarstað og við þau skilyrði þrífst hún mjög vel. Hún er einblómstrandi og stendur í blóma frá máðarmótum júní - júlí og fram í ágúst.
Ég hef átt þessa rós í allmörg ár. Hún óx við suðurvegg í gamla garðinum mínum þar sem hún óx og blómstraði mjög vel. Fyrst eftir að ég flutti hafði ég ekki stað fyrir hana undir suðurvegg og hún átti nokkur erfið ár og var næstum búin að gefast upp þegar beðið við suðurvegginn var loksins tilbúið. Þar hefur hún tekið við sér og er smám saman að jafna sig. Hvernig hefur hún reynst hjá ykkur?