Meyjarós
Meyjarós er hávaxin runnarós sem vex villt í Kína. Blómin eru einföld og geta verið bleik eða rauð. Hún er þokkalega harðgerð, en þarf þó skjólsælan og sólríkan vaxtarstað. Rósin á myndinni er svona hálfgerður erfðagripur í fjölskyldunni. Hún óx í garði afa míns, foreldrar mínir fengu rótarskot af þeirri rós og ég fékk rótarskot af rósinni þeirra. Ég fékk reyndar all mörg rótarskot áður en mér tókst að fá hana til að vaxa hjá mér. Það síðasta tók loksins við sér eftir að ég plantaði því í upphækkað beð meðfram götunni sem snýr í suðaustur. Ég gróðursetti hana þar til að sjá hvort hún myndi aðeins taka við sér því hún vildi ekki vaxa á þeim stað sem ég hafði upphaflega ætlað henni. Ætlunin var að færa hana aftur þegar hún væri búin að braggast, en hún rauk af stað á einu sumri upp í 2 m hæð, svo ég held að henni verði varla haggað úr þessu. Hún blómstraði loks í fyrsta sinn í sumar (2020).