Þyrnirós
'Katrín Viðar' er mjög fallegur þyrnirósarblendingur með nokkuð stórum, einföldum blómum. Þau eru hvít með smá bleikri slikju. Knúpparnir eru hvítir og bleikir. Hún þroskar hnöttóttar nýpur, sem er mjög dökk vínrauðar, næstum svartar. Þessi rós kom upp af fræi af óþekktum uppruna hjá Grasagarði Reykjavíkur einhverntíma í kringum 1970 og var nefnd til heiðurs hjónunum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Þau gáfu Reykjavíkurborg safn íslenskra plantna 1961 sem varð upphafið að Grasagarði Reykjavíkur. (Heimild: Jóhann Pálsson, Garðyrkjuritið 1993, bls.112-113)
Ég hef átt þessa rós í a.m.k. 15 ár og hún hefur reynst harðgerð og blómviljug. Það veltur þó töluvert mikið á staðsetningu. Hún hefur vaxið á misvel skýldum stöðum og kelur meira eftir því sem meira næðir um hana. Blómgunin er líka misjöfn milli ára. Hún tók langt hlé eftir að ég flutti, en sumarið 2019 blómstraði hún mikið og minnti á hversu dásamlega falleg hún getur verið. Hún þarf sólríkan stað og frekar sendinn, vel framræstan jarðveg.