Klasarós (Floribunda/Polyantha)
'Morsdag' er klasarós sem hollenski rósaræktandinn F. J. Grootendorst uppgötvaði 1949. Hún er nokkuð merkileg fyrir þær sakir að vera komin af röð rósasporta, en sport er það kallað þegar stökkbreyting verður í plöntu og upp vex ný grein eða stilkur með ólíkum eiginleikum frá móðurplöntunni, t.d. blómlit, vaxtarlagi, laufblaðalit, blómgerð o.s.frv. Upphaf þessa ættleggs rósasporta er rósin 'Tausendschön' sem var fræplanta af multiflorablendingnum 'Crimson Rambler'. 'Tausendschön' er hávaxin, einblómstrandi rós, sem blómstrar fylltum, bleikum blómum. Hún gaf af sér sportið 'Echo', sem er síblómstrandi, lágvaxin rós með fyllt, bleik blóm eins og móðurplantan. Það er frekar sjaldgæft að hávaxin, einblómstrandi rós gefi af sér sport sem er lágvaxið og síblómstrandi. 'Echo' hélt sporthefðinni við og er 'Morsdag' fimmta kynslóð sporta frá rósinni 'Echo'. 'Morsdag' hefur svo gefið af sér tvö sport 'Orange Morsdag' og 'Vatertag', sem hafa líka gefið af sér a.m.k. eitt sport hvort. Stökkbreytingareiginleikinn virðist því vera mjög ríkur í þessari ætt.
Þetta er frekar viðkvæm rós, sem verður varla langlíf utandyra hér á landi, en getur lifað góðu lífi í gróðurhúsi.