Ígulrósarblendingur (Hybrid Rugosa)
'Fönn' er ein af mörgum fallegum ígulrósarblendingum sem hafa komið út úr kynbótastarfi Jóhanns Pálssonar. Foreldrar hennar eru 'Logafold' og 'Schnee Eule'. 'Fönn' er harðgerð og falleg runnarós sem blómstrar fylltum, hvítum blómum. Þau hafa fölbleika slikju fyrst eftir að blómin springa út, en verða svo snjóhvít. Hún þroskar rauðgular nýpur. Eins og aðrar rósir þrífst hún best á sólríkum stað, en hún þolir skugga part úr degi.