Ígulrósarblendingur (Hybrid Rugosa)
'Ritausma' er lettneskur ígulrósarblendingur sem Dz. Rieksta ræktaði 1963. Rósin barst til Strobel BKN í Þýskalandi frá Grasagarðinum í Leningrad, en engar upplýsingar um heiti eða ræktanda fylgdu með. Strobel markaðssetti hana svo undir heitinu 'Polareis' í Þýskalandi 1991. 'Polareis' var svo greind sem 'Ritausma' af bæði bandarískum og norskum sérfræðingum með því að bera saman plöntur sem uxu á sama stað. Heitið 'Polareis' ('Polar Ice') er meira notað í Bandaríkjunum, en 'Ritausma' í Eystrasalts- og Norðurlöndunum.
Þetta er stórkostlega falleg rós. Blómklasarnir eru stórir og þungir og það tekur hana nokkur ár að vaxa upp í hæfilega hæð til að bera þá vel. Hún blómstrar nánast látlaust frá byrjun júlí fram að frosti og blómin eru alveg þokkalega veðurþolin. Harðgerð og mjög blómsæl.