Ígulrósarblendingur (Hybrid Rugosa)
'Wasagaming' er kanadískur ígulrósarblendingur, ræktuð af Frank Leith Skinner 1939. Samkvæmt hans heimildum var hún afrakstur víxlfrjóvgunar ígulrósar, Rosa rugosa og heiðarósar, Rosa acicularis. Hann notaði heiðarósina töluvert í sínum kynbótum til að ná fram harðgerðari rósum. Sú kenning hefur verið sett fram að það hafi mögulega verið Rosa woodsii, frekar en heiðarós sem hann notaði, þar sem sú rós er útbreiddari á því svæði Kanada þar sem hann stundaði sitt kynbótastarf. Hvort sú sé raunin er ómögulegt að segja.
Það eru þrjár rósir sem hafa verið seldar undir þessu heiti hér á landi, 'Skotta' og 'George Will' höfðu báðar verið seldar sem 'Wasagaming' um árabil, áður en Ólafur Njálsson í Nátthaga flutti réttu rósina inn frá Kanada og keypti ég mína plöntu hjá honum. Hún blómstrar bleikum, lausfylltum, mikið ilmandi blómum sem hafa smá lillabláan blæ. Hún byrjar að blómstra í byrjun júlí og er ein af fyrstu ígulrósarblendingunum til að byrja að blómstra. Harðgerð og falleg runnarós.