Álfarós
Álfarós er fíngerð runnarós sem vex villt í Kína. Hún hefur grannar, bogsveigðar greinar og smágert lauf. Blómliturinn getur verið töluvert breytilegur, frá ljósbleikum yfir í rauðbleikan. Mig minnir að ég hafi ræktað rósina mína af fræi og hún hafði verið afskaplega lengi í uppeldi þegar hún loksins blómstraði sumarið 2018. Ég átti von á ljósbleikum blómum, svo þessi sterki rauðbleiki litur kom mér á óvart. Hún hefur ekki blómstrað mikið ennþá, það er ekki ólíklegt að hún þurfi meiri sól en hún fær þar sem hún er núna. Það eru vandfundnir sólarblettirnir í garðinum mínum. Þetta er rós sem vex best á sólríkum stað í rýrum, vel framræstum jarðvegi.