Múmíurós
Múmíurós er lágvaxin runnarós af óþekktum uppruna sem á sér merkilega sögu. Hún er talin vera ævaforn, mögulega elst allra ræktaðra rósa. Hún var uppgötvuð í Abyssínu einhverntíma á 19. öld, svæði sem nú tilheyrir Eritreu og Eþíópíu, þar sem hún er talin hafa verið gróðursett af kristniboðum í kringum árið 400 og vísa heitin Rosa sancta og Holy rose of Abyssinia til þess. Rósir sem taldar eru sama sort fundust líka í grafhýsum í Egyptalandi frá árunum 100-300 og er íslenska heiti hennar dregið af því. Þar sem hún er talin vera blendingur af villtum rósum sem eiga ekki heimkynni í Afríku, hafa verið settar fram kenningar um að hún hafi borist þangað frá Ítalíu, Grikklandi eða Tyrklandi, þó það sé að sjálfsögðu ekki vitað. Þessi kenning byggir á þeim getgátum að hún gæti verið blendingur af gallarós (Rosa gallica) sem vex m.a. villt í suður Evrópu og einhverri annarri rós.
Hún blómstrar nokkuð stórum, einföldum, ilmandi blómum sem opnast fölbleik en verða hvít með aldrinum. Hún er þokkalega harðgerð, en þarf skjólgóðan, sólríkan stað til að þrífast vel og blómstra.