Flækjurós (Rambler)
'Brenda Colvin' er ensk flækjurós sem er fræplanta af flækjurósinni 'Kiftsgate' (Rosa filipe). Hún blómstrar smáum, hálffylltum, fölbleikum blómum. Þetta er mjög kröftug og hraðvaxta klifurrós, sem lét þetta kalda og dimma sumar hér fyrir sunnan merkilega lítið á sig fá. Árssprotarnir eru yfir 50 cm á lengd og hún náði að blómstra tveimur blómklösum. Samkvæmt erlendum harðgerðiskvörðum ætti hún ekki að þrífast hér, en þó að frostþolið sé kannski ekki mikið, þá kom hún vel undan erfiðum vetri og virðist komast af með ansi lágan sumarhita. Það verður áhugavert að sjá hvað hún gerir ef það kemur almennilegt sumar einhverntíma.
Hver er ykkar reynsla af þessari fallegu rós?