Rósin 'Champlain' flokkast sem nútíma runnarós. Hún er Kordesii blendingur sem tilheyrir kanadísku Explorer-seríunni. Hún reyndist mjög vel hjá mér í gamla garðinum, blómstraði mikið og kól frekar lítið. Hún blómstrar stanslaust frá því hún byrjar seinni part júlí og fram í frost. Blómin eru hálffyllt, dökkrauð og mjög fagurlega löguð. Ilmurinn er frekar daufur.
Hún er ekki alveg búin að ná sér á strik eftir flutninginn, náði að kreist aút eitt blóm 2017, en var komin undir aðrar rósir í rósabeðinu í fyrra, svo ég þarf að bjarga henni á betri stað.
Kordesii blendingar eru afkvæmi R. kordesii og annarra rósa. R. kordesii kom upp af fræi af rósinni 'Max Graf' hjá rósaræktandanum Kordes í Þýskalandi 1941. Hún hafði sérstaka eiginleika sem nýttust vel í rósakynbætur og er því foreldri margra garðrósa. Svejda í Kanada nýtti hana sem foreldri í einhverjum af Explorer rósunum, þeirra á meðal 'Champlain'.
Ég fékk r. ‘Champlain vorið 2017. Hún var smá þegar eg fékk hana en ég
setti hana strax í uppeldisbeð. Hún varð ekki fyrir miklu kali og var dugleg rigningarsumarið 2018.