Þyrni og ígulrósablendingur
'Ristinummi' er finnsk fundrós sem fannst við járnbrautarteina í grennd við lestarstöðina Ristinummi í Järvenpää í Finnlandi. Hún er talin vera blendingur þyrnirósar og ígulrósar. Henni svipar meira til ígulrósa í útliti, blómin eru mjög stór og laufið er líka stórgert, en þó ekki eins hrjúft eins og lauf ígulrósa. Blómin eru einföld, fölbleik með kremhvítri miðju og ilma nokkuð mikið. Hún getur þroskað rauðbrúnar nýpur sem minna meira á nýpur þyrnirósa, þó þær séu stærri. Fái hún haustliti eru þeir rauðleitir. Mín reynsla af þessari rós er sú að hún er mjög kröftug og harðgerð. Hún kól reyndar nokkuð síðastliðinn vetur því hún stendur í brekku sem vísar í NV og norðanáttin beit ansi fast í vetur. Í mildari vetrum kelur hún lítið sem ekkert. Þetta er mjög falleg rós, en hún er plássfrek. Hún verður yfir 1,5 m á hæð og ekki minna á breidd og svo setur hún líka nokkuð af rótarskotum, svo hún getur orðið enn meiri um sig ef rótarskotin eru ekki tekin.
Hver er ykkar reynsla af þessari rós?