Koparstör
'Red Rooster' er afbrigði af koparstör með þráðmjóu, koparlituðu laufi, sem krullast í endana. Það heldur sér allan veturinn, svo það mætti segja að það sé síbrúnt. Ég var reyndar í mikilli óvissu með hvort það væri á lífi þar til það fór að sýna skýr merki um nývöxt í vor. 😁 En það semsagt lifði veturinn af og óx vel í sumar. Þetta er planta sem þarf gott pláss til að vaxtarlagið njóti sín vel, svo ég færði hana til í haust. Hún vill hæfilega rakan jarðveg, ekki of blautan og ekki of þurran. Hún er sérstaklega viðkvæm fyrir of blautum jarðvegi yfir vetrarmánuðina, svo jarðvegurinn þarf að vera hæfilega vel framræstur. Hún þolir skugga part úr degi, en verður fallegust á sólríkum stað.