Blástrýgresi
Blástrýgresi er smávaxið, fíngert skrautgras með blágrænu laufi. Blómin eru í þéttum punti, kremhvít og stráin verða gulbrún þegar þau þroskast. Ég ræktaði það af fræi fyrir nokkrum árum og það virðist vera ágætlega harðgert. Það blómstraði í fyrsta sinn í sumar mér til mikillar gleði og hlakkaði ég til að njóta þeirra fram eftir vetri. Ég var að brasa í beðinu í haust og færa til plöntur og tókst að brjóta öll stráin, svo þar fór það þetta árið. En ég er allavega afskaplega lukkuleg með það. Á myndinni sjást tvær minni plöntur sem höfðu verið í pottum í tvö ár sem ég plantaði út í beð núna í haust, svo ég á von á myndarlegum brúski næsta sumar! Það vex best í sól í vel framræstum jarðvegi.