Askhlynur
Askhlynur getur orðið yfir 12 m á hæð erlendis, en verður mun lægri hér á landi. Sem er kannski ágætt, því hann er alræmdur fyrir mjög veikburða greinar sem hættir til að brotna af og valda tjóni. Hér á landi kelur hann töluvert, svo hann verður frekar runnkenndur í vexti. Hann hefur mjög fallegt lauf, sem er ólíkt laufi flestra annarra hlyntegunda að því leiti að þau eru fjaðurskipt, eins og lauf asks, og er íslenska heitið dregið af því. Hann fær fallega gula haustliti, ef hann nær að skipta lit fyrir frost. Þetta er ekki skuggþolið tré, hann vill vera sólarmegin í lífinu a.m.k. part úr degi. Hann þolir flestar jarðvegsgerðir svo framarlega sem jarðvegurinn sé vel framræstur og þokkalega rakur.
Ég hef átt minn í rúman áratug og hann er bara svipaður á hæð og hann var þegar ég fékk hann, en aðeins meiri um sig. Hann kelur alltaf töluvert, en ársvöxurinn nær að bæta það upp svo ætli það verði ekki að teljast jákvætt að hann fari ekki minnkandi. Það væri heldur verra. Hann væri kannski gróskulegri ef hann væri í betra skjóli og meiri sól. Ég hef bara ekki betri stað fyrir hann og tími ekki að henda honum, því hann er mjög blaðfallegur.