Japanshlynur
'Atropurpureum' er afbrigði af japanshlyn sem getur orðið 4-8 m á hæð erlendis, en verður líklega töluvert lægri hér á landi. Hann þarf mjög gott skjól, sérstaklega fyrir norðanáttinni og fái hann það þrífst hann ágætlega og kelur ekki mikið. Hann á engan séns ef skjólið er ekki til staðar. Í skjóli þrífst hann vel í hálfskugga í vel framræstum, rökum jarðvegi.
Fyrstu tvö árin sem ég átti minn var ég með hann í potti sem ég geymdi í gróðurhúsi yfir veturinn og hafði úti yfir sumarið. Svo hætti ég að nenna að drösla pottinum fram og til baka og ákvað að taka sénsinn á að planta honum út. Ég gróðursetti hann við skjólvegg sem veitti skjól fyrir norðanáttinni og hann óx ljómandi vel og kól lítið. Þegar ég flutti tímdi ég ekki að skilja hann eftir, en nýi garðurinn var ekki nógu skjólgóður og hann veslaðist upp á tveimur vetrum. Það var mikil efirsjá af honum. Ofboðslega flott planta. Laufið er vínrautt allt sumarið og verður svo eldrautt á haustin.