Þófasnepla
Þófasnepla er sígrænn dvergrunni sem á heimkynni á Nýja Sjálandi eins og allar aðrar tegundir ættkvíslarinnar. Laufið er grágrænt og hún blómstrar hvítum blómum í júlí - ágúst. Ég keypti þessa plöntu að hausti eitthvert árið snemma á þessari öld og hún var bara merkt sem Hebe. Ég hef mikið leitað á netinu til að reyna að finna hvaða tegund þetta gæti verið og það eru fleiri en sem líkjast henni. Ég rakst á plöntur í Þöll 2019 sem líkjast mjög minni plöntu, svo ég ætla að giska á að hún sé þófasnepla, þar til annað kemur í ljós. Ég var búin að eiga hana í mörg ár áður en hún tók upp á því að blómstra og var bara sátt við að hún væri þessi grágræna kúla sem hún var. Ekki skemmdu þó blómin fyrir og ekki nóg með það, hún þroskar fræ og hefur sáð sér aðeins. Ekki þó þannig að hún sé til vandræða. Hún vex sunnan megin við húsið, svo hún fær töluverða sól, sem á líklega sinn þátt í því að hún tók upp á því að fara að blómstra. Hún er líka í þokkalegu skjóli og við þau skilyrði þrífst hún afar vel.