Himalajaeinir
'Blue Star' er þéttvaxið og bústið afbrigði af himalajaeini með blágrænu barri. Það getur orðið 50 cm á hæð og töluvert breitt við góð skilyrði. Það þrífst best í sól eða hálfskugga í frekar rýrum, sendnum, vel framræstu jarðvegi. Það er þó ekki mjög kröfuhart og getur þrifist í flestum jarðvegsgerðum, svo framarlega sem jarðvegurinn er ekki of þéttur og blautur. Ég hef átt þessa plöntu í tveimur görðum og hún þreifst vel í þeim gamla og þrífst líka vel í þeim nýja. Önnur óx í norður horni lóðarinnar, óvarin veðri og vindum og það sá aldrei á henni. Hin er í betra skjóli og var ein af fáum sígrænum plöntum sem skemmdust ekkert síðasta vetur. Ég held að það sé því óhætt að segja að þetta sé nokkuð harðgert afbrigði.
Hver er ykkar reynsla af þessari sort?