Garðaýr
'Hillii' er karlkyns yrki af garðaýr með uppréttan vöxt. Hann getur orðið um 2 m á hæð og meter á breidd. Þar sem þetta yrki er karlkyns þroskar það ekki aldin. Það hefur reynst mjög vel hjá mér, og vaxið hægt, en örugglega. Eina áfallið sem það hefur orðið fyrir á þeim rúma áratug sem ég hef átt það er þurrkur. Ég gróðursetti það í regnskugga undir stóru reynitré í núverandi garði og passaði ekki upp á það fyrst eftir að ég gróðursetti það að passa upp á að vökva. Það tapaði slatta af barri en var fljótt að jafna sig eftir að ég vökvaði það. Þetta yrki á að vera mjög svipað yrkinu 'Hicksii' sem er kvenkyns. Væru bæði yrkin ræktuð saman væri möguleiki á að fá aldin, að því gefnu að þau myndu bæði blómgast. Heimildum ber þó ekki saman um það hvort 'Hicksii' sé alltaf kvenkyns.