A
Acaena - Rósalauf
Ættkvíslin Acaena, rósalauf, tilheyrir rósaætt, Rosaceae. Útbreiðslusvæði ættkvíslarinnar er að mestu bundið við suðurhvel jarðar, Nýja-Sjáland, Ástralíu og Suður-Ameríku. Þetta eru jarðlægar jurtir eða hálfrunnar með smágerðu laufi sem minnir á rósalauf og er nafn ættkvíslarinnar dregið af því. Þetta eru fallegar þekjuplöntur með litfögru laufi í ýmsum litbrigðum s.s. blágráu eða bronslitu.
Achillea - Vallhumlar
Ættkvíslin Achillea, vallhumlar, tilheyrir körfublómaætt, Asteraceae. Helsta einkenni þeirra eru fínfjaðurskipt, ilmandi laufblöð og mjög smá körfublóm í sveip. Í ættkvíslinni eru um 150 tegundir sem eiga heimkynni í Evrópu, norðanverðri-Asíu og Norður-Ameríku. Fjöldi garðaafbrigða er í ræktun í ýmsum litbrigðum.
-
Achillea millefolium - vallhumall
Acinos - Fjallaburstar
Acinos er lítil ættkvísl um 10 tegunda sem tilheyra varablómaætt, Lamiaceae, með heimkynni í S-Evrópu og V-Asíu. Þetta eru lágvaxnar eða jarðlægar plöntur sem þurfa sólríkan vel framræstan vaxtarstað. Acinos er komið af gríska orðinu akinos sem merkir lítil, ilmandi planta.
Aconitum - Bláhjálmar
Ættkvíslin Aconitum, bláhjálmar tilheyrir sóleyjaætt, Ranunculaceae og eins og margar ættkvíslir þeirrar ættar eru bláhjálmar eitraðir. Flestir raunar svo eitraðir að á ensku nefnast þeir "wolf's bane" eða úlfabanar og voru vinsæl aðferð hjá kóngafólki fyrri alda til að ryðja keppinautum úr vegi. Bláhjálmar eru harðgerðir og þola nokkurn skugga, en of mikill skuggi getur þó komið niður á blómgun. Þeir kunna best við sig í frjósömum, heldur rakaheldnum en þó gljúpum jarðvegi enda vaxa flestar tegundir á fjallaengjum á norðurhveli jarðar.
Adenophora - Kirtilklukkur
Kirtilklukkur, Adenophora, eru af bláklukkuætt , Campanulaceae og líkjast blómin mjög bláklukkum. Langflestar tegundir ættkvíslarinnar eiga heimkynni í Asíu en ein tegund vex villt í Evrópu.
Adenostyles - Mistur/Körfusveipir
Körfusveipir, Adenostyles, tilheyrir körfublómaætt, Asteraceae. Þetta er lítil ættkvísl sem inniheldur aðeins þrjár tegundir sem allar eiga heimkynni í Alpafjöllum.
Agastache - Exir
Agastache er ættkvísl fjölærra jurta í varablómaætt, Lamiaceae, með ilmandi lauf og blóm í löngum klösum. Í ættkvíslinni eru 22 tegundir sem allar eiga heimkynni í N-Ameríku, utan ein sem á heimkynni í A-Asíu. Þetta eru vinsælar garðplöntur á suðlægari slóðum þar sem þær eru vinsæl fæðuuppspretta fyrir fiðrildi og kólíbrífugla, og er fjöldi yrkja í ræktun. Þær eru helst til viðkvæmar hér
Ajuga - Lyngbúar
Ættkvíslin Ajuga, lyngbúar, er af varablómaætt, Lamiaceae. Íslenska heiti ættkvíslarinnar er dregið af sjaldgæfri íslenskri jurt. Lyngbúi vex eingöngu á Austurlandi og er alfriðaður. Þær tegundir sem hafa verið ræktaðar í görðum hér eiga heimkynni í Evrópu.
Alchemilla - Döggblöðkur
Döggblöðkur, Alchemilla, er ættkvísl jurta í rósaætt, Rosaceae. Þær eru blaðfagrar og þó blómin láti lítið yfir sér eru ljósgrænir sveipirnir mikið skraut sem fer afar vel með öðrum plöntum. Langflestar tegundir ættkvíslarinnar eiga heimkynni í norðanverðri Evrasíu, en einnig eru nokkrar tegundir sem eiga heimkynni í fjöllum Afríku og í Norður-Ameríku. Þrjár tegundir vaxa villtar á Íslandi (*).
Allium - Laukar
Ættkvíslin Allium, laukar, tilheyrir laukætt, Alliaceae. Hún inniheldur ekki bara matlaukana sem við þekkjum, heldur einnig nokkrar fallegar garðplöntur. Þetta er afar stór ættkvísl sem inniheldur hátt í 1000 tegundir sem flestar eiga heimkynni í tempraða beltinu á norðurhveli jarðar.
Androsace - Berglyklar
Berglyklar, Androsace, tilheyra maríulykilsætt, Primulaceae. Í ættkvíslinni eru um 100 tegundir sem allar eru háfjallaplöntur sem þrífast best í grýttum jarðvegi á sólríkum stað.
Anemone - Snotrur
Snotrur, Anemone, tilheyra sóleyjaætt, Ranunculaceae og líkjast mjög sóleyjum. Þær vaxa einkum á norðlægum slóðum og upp til fjalla. Margar blómstra á vorin eða snemmsumars, þó nokkrar, eins og haustsnotra, blómstri síðsumars.
-
Anemone blanda - balkansnotra
-
Anemone nemorosa - skógarsóley
Anthyllis - Gullkollar
Ættkvíslinni Anthyllis, gullkollum, tilheyra bæði jurtkenndar og runnkendar plöntur með útbreiðslu um Evrópu, Miðausturlönd og N-Afríku. Gullkollur er útbreiddasta tegund ættkvíslarinnar og vex villt á Íslandi. Hann er útbreiddur á SV-landi en sjaldgæfur annarsstaðar og er talinn hafa verið fluttur inn sem fóðurjurt upphaflega (vefur Náttúrufræðistofnunar).
Anticlea - Eiturkirtlar
Ættkvíslinni Zigadenus, eiturkirtlum, var fyrir nokkru skipt upp og er nú aðeins ein tegund eftir í þeirri ættkvísl, Z. glaberrimus. Aðrar tegundir þeirrar ættkvíslar og einnig þrjár tegundir ættkvíslarinnar Stenanthium, hafa verið fluttar í ættkvíslina Anticlea. Þetta eru eitraðar laukplöntur með heimkynni í Asíu og N-Ameríku.
Aquilegia - Vatnsberar
Ættkvíslin Aquilegia, vatnsberar, tilheyrir sóleyjaætt, Ranunculaceae. Þeir eru einnig nefndir sporasóleyjar og er það nafn dregið af hunangssporum sem krónublöðin mynda. Þetta eru harðgerðar plöntur sem kunna best við sig í heldur rökum jarðvegi og skugga part úr degi. Þó eru til fjallaplöntur í þessari ættkvísl sem kjósa að vera sólarmegin í lífinu og vaxa best í vel framræstum jarðvegi.
-
Aquilegia
-
Aquilegia sp.
-
Aquilegia vulgaris - skógarvatnsberi
-
var. stellata
-
var. vervaeneana
-
Aquilegia x hybrida - garðavatnsberi
Arabis - Skriðnablóm
Skriðnablóm, Arabis, er ættkvísl í krossblómaætt Brassicaceae. Þetta eru lágvaxnar fjallaplöntur sem vaxa í grýttum jarðvegi, flestar í fjöllum Evrópu og Asíu.
Arenaria - Sandar
Ættkvíslin Arenaria, sandar, er stór ættkvísl í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae. Þetta eru lágvaxnar, fíngerðar plöntur sem vaxa í sendnum jarðvegi.
Armeria - Gullintoppur
Gullintoppur, Armeria, tilheyra gullintoppuætt, Plumbaginaceae. Tegundir ættkvíslarinnar eru mjög líkar og oft erfitt að greina á milli tegunda. Þær einkennast af jarðlægri blaðhvirfingu striklaga laufblaða og blómkollum á blaðlausum stilki. Ein íslensk planta, geldingahnappur, tilheyrir þessari ættkvísl en aðrar tegundir eiga flestar heimkynni við Miðjarðarhafið.
Artemisia - Malurtir
Malurtir, Artemisia, tilheyra körfublómaætt, Asteraceae. Ættkvíslinni tilheyra bæði jurtir og runnar með ilmandi laufi sem eiga heimkynni í tempruðu beltum norður- og suðurhvels þar sem þær vaxa yfirleitt í frekar þurrum jarðvegi. Artemisia absinthium er notuð í ýmsa áfenga drykki s.s. absinthe og vermouth. Nokkrar tegundir eru ræktaðar sem skrautplöntur í görðum.
Aruncus - Geitaskegg
Geitaskegg, Aruncus, tilheyra rósaætt, Rosaceae. Þau eru náskyld ættkvíslum mjaðjurta (Filipendula) og kvista (Spirea) og eiga heimkynni í deigu skóglendi upp til fjalla á norðurhveli jarðar.
Aster - Stjörnufíflar
Stjörnufíflar, Aster, tilheyra körfublómaætt, Asteraceae. Heimkynni ættkvíslarinnar eru engi í tempraða beltinu nyrðra, og vex meirihlutinn í Norður-Ameríku. Þeir þrífast best í rökum, frjósömum jarðvegi og kjósa að vera sólarmegin í lífinu. Flestir stjörnufíflar blómgast síðsumars og fram á haust, en þeir sem helst eru ræktaðir hér eru háfjallaplöntur sem blómgast fyrr, í júlí - ágúst.
-
Aster alpinus - fjallastjarna
Astilbe - Musterisblóm
Ættkvísl musterisblóma, Astilbe, tilheyrir steinbrjótsætt, Saxifragaceae og eiga flestar tegundir ættkvíslarinnar heimkynni í A-Asíu. Þær þurfa rakan jarðveg og bjartan og hlýjan vaxtarstað. Mörg yrki musterisblóma blómstra of seint fyrir íslenskar aðstæður og því mikilvægt að velja snemmblómgandi yrki.
-
Astilbe chinensis - kínablóm
-
'Vision in Red'
-
Astilbe japonica - japansblóm
-
Astilbe x arendsii - musterisblóm
Astrantia - Sveipstjörnur
Ættkvísl sveipstjarna, Astrantia, tilheyrir sveipjurtaætt, Apiaceae. Flestar tegundir ættkvíslarinnar eiga heimkynni í skógivöxnu fjalllendi Mið- og Austur-Evrópu þar á meðal Ölpunum. Þetta eru harðgerðar, meðalháar plöntur sem þrífast vel í almennri garðmold bæði í sól og nokkrum skugga.
-
'Hadspen Bood'
-
'Star of Love'
Aubrieta - Breiðublóm
Breiðublóm, Aubrieta, tilheyra krossblómaætt, Brassicaceae, með heimkynni í S-Evrópu til Mið-Asíu. Þetta er lítil ættkvísl mjög líkra tegunda sem allar mynda þúfur eða breiður með stuttum, stórblóma blómklösum. Þau vaxa best í grýttum jarðvegi á sólríkum stað.
-
Aubrieta x cultorum - hraunbúi
Aurinia/Alyssum - Nálablóm
Ættkvíslin Alyssum, nálablóm, tilheyrir krossblómaætt, Brassicaceae. Þetta er nokkuð stór ættkvísl líkra tegunda sem eiga heimkynni við Miðjarðarhaf og austur til Mið-Asíu. Margar eru lágvaxnar fjallaplöntur, flestar með klasa lítilla hvítra eða gulra blóma. Þær þrífast best í sendnum, vel framræstum jarðvegi á sólríkum stað. Ættkvíslin Aurinia er náskyld ættkvísl sem nokkrar tegundir sem áður voru flokkaðar til Alyssum ættkvíslarinnar hafa verið færðar í. Þær blómstra allar gulum blómum og eiga heimkynni í Mið- og S-Evrópu.
B
Brunnera - Búkollublóm
Ættkvísl búkollublóma, Brunnera, tilheyrir munablómaætt, Boraginaceae og inniheldur aðeins þrjár tegundir sem eiga heimkynni í skóglendi A-Evrópu og NV-Asíu. Allar eru vorblómstrandi þekjuplöntur sem vaxa best í skugga.
-
Brunnera macrophylla - búkollublóm
-
'Looking Glass'