top of page
Marble Surface

G

Galium odoratum
Galium - Möðrur
 

Möðrur, Galium, er stór ættkvísl í möðruætt, Rubiaceae, með yfir 600 tegundum. Flestar þykja ekki eftirsóknarverðar garðplöntur, en þó eru örfáar sem eru ljómandi fallegar. Fjórar tegundir vaxa villtar á Íslandi, hvítmaðra, laugamaðra, gulmaðra og krossmaðra, og sóma a.m.k þær tvær síðastnefndu sér ljómandi vel á klöppum og í skógarrjóðrum.

 

Gentiana dinarica
Gentiana - Maríuvendir
 

Maríuvendir, Gentiana, er stór ættkvísl um 400 tegunda í maríuvandaætt, Gentianaceae. Hún dreifist um fjalllendi og tempruð belti Evrópu, Asíu og Ameríku. Eitt aðaleinkenni ættkvíslarinnar eru stór tregtlaga blóm og margar tegundir skarta einstaklega skærbláum blómum.

 

Geum coccineum
Geum - Dalafíflar
 

Dalafíflar, Geum, er ættkvísl í rósaætt, Rosaceae, náskyld murum (Potentilla), en ólíkt þeim standa dalafíflar yfirleitt mjög lengi í blóma. Þeir vaxa víða um Evrópu, Asíu, Ameríku, Afríku og á Nýja-Sjálandi. Flestir vaxa best á sólríkum stöðum, en gera engar sérstakar jarðvegskröfur.

 

Gillenia trifoliata
Gillenia - Snótarblóm
 

Snótarblóm, Gillenia, er ættkvísl tveggja tegunda í rósaætt, Rosaceae. Báðar tegundir eru skógarplöntur sem vaxa á austurströnd N-Ameríku í þurru skóglendi. Þær kjósa fremur súran jarðveg.

 

Gypsophila repens 'Alba'
Gypsophila - Blæjublóm
 

Blæjublóm, Gypsophila, er ættkvísl í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae, með útbreiðslu um Evrasíu, Afríku og Eyjaálfu, með mestan tegundafjölda í Tyrklandi. Blæjublóm hafa djúpstætt rótarkerfi og er því illa við flutning. Þau þrífast best í djúpum, vel framræstum jarðvegi á sólríkum stað.

 

Marble Surface
bottom of page