
H

Hedysarum - Lykkjubaunir
Lykkjubaunir, Hedysarum, er ættkvísl um 300 tegunda í ertublómaætt, Fabaceae, með heimkynni í Evrasíu, N-Afríu og N-Ameríku. Nafn ættkvíslarinnar er dregið af einkennandi liðskiptum fræbelgjum. Þær þurfa djúpan, næringarríkan jarðveg þar sem þær hafa djúpstæðar rætur og þola því illa flutning.

Helleborus - Jólarósir
Jólarósir, Helleborus, er ættkvísl um 20 tegunda í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni í Evrasíu, flestar á Balkanskaga. Þetta eru sígrænar jurtir sem vaxa í frjóum, heldur basískum jarðvegi í hálfskugga innan um lauftré og runna og blómgast síðvetrar eða að vori.
-
Helleborus x hybridus - páskarós
G

Hemerocallis - Dagliljur
Dagliljur, Hemerocallis, er ættkvísl 19 tegunda sem áður tilheyrðu liljuætt, Liliaceae, en hafa nýlega verið flokkaðar í ættina Asphodelaceae. Dagliljur vaxa villtar um Evrasíu, flestar í austanverðri Asíu. Þær eru vinsælar garðplöntur og eru yfir 60.000 yrki skráð. Nafn ættkvíslarinnar er dregið af því að hvert blóm stendur yfirleitt ekki lengur en sólarhring.

Hepatica - Skógarblámar
Skógarblámar, Hepatica, er lítil ættkvísl í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Þetta eru sígrænar, vorblómstrandi skógarplöntur sem þrífast best í fremur kalkríkum jarðvegi og þola nokkurn skugga.

Hesperis - Næturfjólur
Næturfjólur, Hesperis, er ættkvísl um 24 blómjurta í krossblómaætt, Brassicaceae, sem flestar vaxa við austanvert Miðjarðarhaf. Nafn ættkvíslarinnar er dregið af því að blómin ilma mest á kvöldin. Aðeins ein tegund er algeng í görðum.

Heuchera - Roðablóm
Heuchera, roðablóm, er ættkvísl um 30 tegunda í steinbrjótsætt, Saxifragaceae, sem allar eiga heimkynni í N-Ameríku. Einkenni þeirra er hvirfing laufblaða sem oft eru fagurlituð og klasar smárra, klukkulaga blóma. Mikill fjöldi yrkja er ræktaður í görðum.

Heucherella
Heucherella er nýleg ættkvísl sem varð til með víxlun tveggja ættkvísla, Heuchera, roðablóma og Tiarella, löðurblóma. Báðar ættkvíslir tilheyra steinbrjótsætt, Saxifragaceae, og eiga heimkynni í N-Ameríku. Blendingarnir sameina fjölbreyttan lauflit roðablóma og hjartalaga lauf og blómfegurð löðurblóma, en líkjast roðablómunum þó meira.

Hieracium - Undafíflar
Undafíflar, Hieracium, er stór ættkvísl í körfublómaætt, Asteraceae, sem nýlega hefur verið skipt í tvær ættkvíslir, Hieracium og Pilosella. Það sem skilur á milli er að tegundir sem nú eru flokkaðar í Pilosella hafa heilrennd lauf og fjölga sér líka með ofanjarðarrenglum. Tegundir sem enn tilheyra ættkvísl Hieracium hafa þann eiginleika að mynda fræ án frjóvgunar og því er tegundafjöldi ættkvíslarinnar nokkuð á reiki. Undafíflar vaxa í þurru graslendi og kjósa því sólríkan stað.

Hornungia - Snæbreiður
Hornungia, snæbreiður, er lítil ættkvísl þriggja tegunda sem vaxa hátt til fjalla í Evópu. Ættkvíslin tilheyrir krossblómaætt, Brassicaceae, og hét áður Pritzelago og þar áður Hutchinsia og eru það viðurkennd samheiti á tegundum ættkvíslarinnar.

Hosta - Brúskur
Brúskur, Hosta, er ættkvísl skuggþolinna jurta í aspasætt, Asparagaceae (áður liljuætt) sem ræktaðar eru fyrst og fremst vegna blaðfegurðar. Þær eiga heimkynni í NA-Asíu, flestar tegundir sem ræktaðar eru í görðum koma frá Japan.
-
Hosta x. hybr.
-
Hosta fortunei - forlagabrúska
-
Hosta tardiana
-
Hosta undulata - bylgjubrúska

Hypericum - Gullrunnar
Gullrunnar, Hypericum, er stór, fjölskrúðug ættkvísl um 490 tegunda í gullrunnaætt, Hypericaceae, sem dreifast nánast um allan heim. Innan ættkvíslarinnar eru jurtir, runnar og lítil tré, öll með gulum blómum með áberandi löngum fræflum.
