
I

Iberis - Kragablóm
Kragablóm, Iberis, er ættkvísl um 50 tegunda í krossblómaætt, Brassicaceae, sem flestar vaxa í kringum Miðjarðarhafið. Þær tegundir sem geta þrifist hér þurfa vel framræstan og sólríkan vaxtarstað og henta því vel í steinhæðir.

Iliamna - Bjarmar
Iliamna, bjarmar, er lítil ættkvísl um 7 líkra tegunda með heimkynni í N-Ameríku. Ættkvíslin virðist nefnd eftir Iliamna vatni í Alaska, þrátt fyrir að engin tegund ættkvíslarinnar vaxi þar. Þetta eru fallegar, hávaxnar plöntur með klasa af blómum sem líkjast stokkrósum, enda tilheyrir ættkvíslin stokkrósarætt (Malvaceaea).

Incarvillea - Garðaglóðir
Garðaglóðir, Incarvillea, er lítil ættkvísl um 16 tegunda í trjálúðraætt, Bignoniaceae. Ólíkt flestum öðrum tegundum ættarinnar sem vaxa í hitabeltinu, vaxa flestar tegundir garðaglóða hátt í Himalajafjöllum og í Tíbet.

Inula - Sunnufíflar
Sunnufíflar, Inula, er nokkuð stór ættkvísl um 90 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae, með heimkynni í Evrópu, Asíu og Afríku. Þeir eru mjög breytilegir að stærð en eru einkennandi fyrir ættkvíslina, með mörgum, mjög mjóum tungukrónum.

Iris - Sverðliljur
Sverðliljur, Iris, er stór ættkvísl hátt í 300 tegunda í sverðliljuætt, Iridaceae. Orðið iris er úr grísku og merkir regnbogi og vísar í litrík blóm ættkvíslarinnar. Nær allar tegundir vaxa um tempraða belti norðurhvels við mjög breytileg skilyrði, frá þurru fjallendi, til engja og mýra.
J

Jasione - Blákollar
Blákollar, Jasione, er lítil ættkvísl í bláklukkuætt , Campanulaceae, með heimkynni í Evrópu. Flestar tegundirnar eru ein- eða tvíærar.
K

Knautia - Rauðkollar
Rauðkollar, Knautia, er ættkvísl 9 tegunda sem áður tilheyrðu stúfuætt en hafa nú verið fluttar í geitblaðsætt, Capryfoliaceae. Ein tegund, rauðkollur, vex villt á Íslandi.
