
T

Tanacetum - Prestafíflar (IV), reinablóm
Prestafíflar, Tanacetum, er ættkvísl í körfublómaætt, Asteraceae, með heimkynni víða um norðurhvel jarðar. Þeir hafa fjaðurskipt lauf og blómkörfurnar geta haft pípu- og tungukrónur (biskupsbrá) eða eingöngu pípukrónur (regnfang).
-
Tanacetum vulgare - regnfang

Thalictrum - Brjóstagrös
Brjóstagrös, Thalictrum, er stór ættkvísl um 120-200 tegunda í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni á tempruðum svæðum. Einkennandi fyrir tegundir ættkvíslarinnar eru fínskipt lauf og blóm án krónublaða en með löngum fagurlega lituðum fræflum í gisnum toppum. Sumar tegundir hafa fagurlituð bikarblöð. Þær vaxa yfirleitt á skuggsælum stöðum í frekar rökum jarðvegi. Ein tegund, brjóstagras, vex villt á Íslandi.

Thlaspi - Perlusjóðir
Perlusjóðir, Thlaspi, er ættkvísl í krossblómaætt, Brassicaceae, með heimkynni í tempraða belti Evrasíu. Þetta eru smávaxnar fjölærar jurtir með hvítum eða fjólubláum blómum.

Thymus - Blóðberg
Blóðberg, Thymus, er ættkvísl í varablómaætt, Lamiaceae, með útbreiðslusvæði um tempraða belti Evrópu, Asíu og N-Afríku. Þetta eru ilmandi, lágvaxnar jurtir eða hálfrunnar, nokkrar eru ræktaðar sem krydd t.d. timían,

Tradescantia - Skeiðarblóm
Skeiðarblóm, Tradescantia, er ættkvísl í skeiðarblómaætt, Commelinaceae, með útbreiðslusvæði í Ameríku frá S-Kanada til N-Argentínu. Nokkrar tegundir eru ræktaðar sem garðplöntur víða um heim, en eru líklegast of viðkvæmar fyrir íslenskar aðstæður. Nokkrar eru ræktaðar sem stofublóm.

Trifolium - Smárar
Smárar, Trifolium, er stór ættkvísl í ertublómaætt, Fabaceae, með heimkynni um allan heim. Þeir eru niturbindandi og þrífast því vel í rýrum jarðvegi. Þeir eru almennt sólelskir þó einhverjar tegundir þoli skugga part úr degi.

Trillium - Þristar
Þristar, Trillium, er ættkvísl um 50 tegunda í ættinni Melanthiaceae. Þessi ættkvísl hefur verið á nokkru ættarflakki, hún tilheyrði liljuætt (Liliaceae) en þegar henni var skipt upp var þristum skipað í þristaætt (Trilliaceae) sem nú hefur verið felld inn í áðurnefnda ætt, Melanthiaceae. Þetta eru laufskógarplöntur með heimkynni í N-Ameríu og Asíu og þrífast þeir því best í hálfskugga og frjórri, hæfilega rakri en loftkenndri mold.

Trollius - Glóhnappar
Glóhnappar, Trollius, er lítil ættkvísl um 30 tegunda í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni dreifð um nyrðra tempraða beltið með mestan tegundafjölda í Asíu. Þeir vaxa almennt í blautri leirmold í heimkynnum sínum en gera engar sérstakar jarðvegskröfur í görðum.
