V
Verbascum - Kyndiljurtir, kóngaljós
Kyndiljurtir, Verbascum, er ættkvísl um 360 tegunda í grímublómaætt, Scrophulariaceae. Flestar tegundir eiga heimkynni í SA-Evrópu og V-Asíu. Flestar vaxa í sendnum, grýttum jarðvegi en geta vel þrifist í vel framræstri garðmold. Þær þurfa sólríkan, skjólgóðan vaxtarstað.
-
Verbascum x hybridum - skrautkyndill
Veronica - Bládeplur
Bládeplur, Veronica, er stærsta ættkvísl græðisúruættar, Plantaginaceae, með um 500 tegundir. Ættkvíslin tilheyrði áður grímublómaætt en mikil endurskoðun hefur átt sér stað á þeirri ætt og margar ættkvíslir sem tilheyrðu ættinni nú flokkaðar í græðisúruætt. Bládepluættkvíslin er einnig í endurskoðun og mögulegt að allmargar ættkvíslir verði sameinaðar henni, t.d. ættkvíslin Hebe sem er nær eingöngu bundin við Nýja-Sjáland. Flestar tegundir bládepla skv. eldri flokkun eiga heimkynni um nyrðra tempraðað beltið. Þær þrífast best í sól, en gera ekki sérstakar jarðvegskröfur, þó lágvaxnar tegundir þrífist best í sendnum, þurrum jarðvegi.
-
Veronica spicata - axdepla
Vinca - Hörpulauf
Vinca er lítil ættkvísl í ættinni Apocynaceae með útbreiðslu í Evrópu, NV-Afríku og SV-Asíu. Þetta eru jurtir eða hálfrunnar, skriðular þekjuplöntur, sumar mjög skuggþolnar.
Viola - Fjólur
Fjólur, Viola, er stærsta ættkvísl fjóluættar, Violaceae, með mesta útbreiðslu um nyrðra tempraða beltið. Þó vaxa nokkrar tegundir á suðurhveli, t.d. í Andesfjöllum og Ástralíu. Flestar eru lágvaxnar jurtir en örfáar tegundir eru runnkenndar og nokkrar tegundir í Andesfjöllum eru þykkblöðungar. Best þekktar og mest ræktaðar eru stjúpur og fjólur ræktaðar sem sumarblóm, en nokkrar fjölærar tegundir eru ræktaðar í görðum. Fimm tegundir vaxa villtar á Íslandi, birkifjóla, mýrfjóla, skógfjóla, týsfjóla og þrenningarfjóla.
-
Viola sororaria - systrafjóla
W
Waldsteinia - Völvur
Völvur, Waldsteinia, er lítil ættkvísl í rósaætt, Rosaceae, með heimkynni á norðurhveli jarðar. Nokkrar tegundir eru ræktaðar sem skuggþolnar þekjuplöntur í görðum.