top of page
Marble Surface

S

Salvia hians
Salvia - Lyfjablóm, salvíur
 

Lyfjablóm, Salvia, er stærsta ættkvísl varablómaættar, Lamiaceae, með um 1000 tegundum sem vaxa í Evrasíu og Ameríku. Tegundir ættkvíslarinnar skiptast á þrjú útbreiðslusvæði, Mið- og S-Ameríku, Mið-Asíu og Miðjarðarhafssvæðið og austanverða Asíu. Flestar tegundir eru of hitakærar fyrir íslenskt veðurfar en þó eru a.m.k. tvær tegundir sem eru harðgerðar hér.

 

Sanguisorba obtusa
Sanguisorba - Blóðkollar
 

Blóðkollar, Sanguisorba, er ættkvísl um 30 tegunda í rósaætt, Rosaceae, með útbreiðslusvæði um nyrðra tempraðabeltið. Þetta eru fjölærar jurtir eða smávaxnir runnar með blómkollum örsmárra blóma. Þær þrífast best í rökum jarðvegi á sólríkum stað.

 

Saponaria ocymoides
Saponaria - Þvottajurtir
 

Þvottajurtir, Saponaria, er ættkvísl í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae, með heimkynni í Evrópu og Asíu. Latneska heiti ættkvíslarinnar þýðir "sápusafi", en safi tegunda ættkvíslarinnar inniheldur saponína sem freyða og verka líkt og sápa. Hefur a.m.k. sápujurt verið notuð til að búa til fljótandi sápu með því að leggja laufið í bleyti. Flestar tegundir eru með bleik eða hvít blóm. Þær vaxa við breytileg skilyrði, sumar tegundir eru fallegar steinhæðaplöntur sem þrífast best í þurrum, sólbökuðum jarðvegi en aðrar eru hávaxnari og kjósa rakan jarðveg.

 

Saxifraga 'Mossy Mixed'
Saxifraga - Steinbrjótar
 

Steinbrjótar, Saxifraga, er stærsta ættkvísl steinbrjótsættar, Saxifragaceae, með um 440 tegundir sem dreifast um nyrðra tempraða beltið. Latneska heitið þýðir bókstaflega steinbrjótur og er talið vísa til vaxtaskilyrða margra tegunda sem vaxa í klettasprungum og grjótskriðum hátt til fjalla. Aðrar tegundir eru heldur stórvaxnari og vaxa á rökum engjum, en flestar tegundir, jafnvel þær sem vaxa í klettum vaxa þar sem raki er í jörðu eða vatn seitlar fram. Nokkrar tegundir vaxa villtar á Íslandi (*).

​​

Scabiosa lucida
Scabiosa - Ekkjublóm
 

Ekkjublóm, Scabiosa, er ættkvísl sem tilheyrði stúfuætt, en ættkvíslir þeirrar ættar tilheyra nú geitblaðsætt (Caprifoliaceae). Ekkjublóm vaxa á frekar þurrum gresjum og fjallahlíðum, oft í kalkríkum jarðvegi. Þau gera þó engar sérstakar jarvegskröfur í görðum, en þrífast best í frjóum jarðvegi á sólríkum stað.

 

Violet Scutellaria flowers
Scutellaria - Skjaldberar
 

Skjaldberar, Scutellaria, er ættkvísl í varablómaætt (Lamiaceae) með útbreiðslu víða um heim,  aðallega á tempruðum svæðum. Ýmsar tegundir ættkvíslarinnar hafa verið notaðar í grasalækningum.

Sedum aizoon
Sedum - Hnoðrar
 

Hnoðrar, Sedum, er stór ættkvísl allt að 600 tegunda í helluhnoðraætt, Crassulaceae, með útbreiðslu víða um norðurhvel jarðar. Þetta eru jurtkenndir eða runnkenndir þykkblöðungar sem þola mikinn þurrk og þrífast best í sól.

 

Semiaquilegia ecalcarata
Semiaquilegia - Daggarberar
 

Daggarberar, Semiaquilegia, er lítil ættkvísl í sóleyjaætt, Ranunculaceae, náskyld vatnsberum (Aquilegia). Það sem skilur á milli er að daggarberar hafa ekki spora. Tvær tegundir eru ræktaðar í görðum, báðar með heimkynni í Kína.

 

Lemon yellow flowers of Senecio ovatus
Senecio - Krossfíflar
 

Krossfíflar, Senecio, er stór og fjölbreytt ættkvísl í körfublómaætt, Asteraceae. Þetta er ein stærsta ættkvísl blómstrandi jurta með yfir 1200 tegundir, sem hafa útbreiðslu um allan heim. Þær blómstra oftast gulum blómum, en hvít, græn, fjólublá eða blá blóm eru sjaldgæfari. Innan ættkvíslarinnar má finna tegundir úr ýmsum flokkum, s.s. sumarblóm (silfurkambur), tré, runna og hið magnaða illgresi, krossfífil, sem er sennilega útbreiddasta tegund ættkvíslarinnar hér á landi.  Þar má þó einnig finna harðgerðar fjölærar plöntur sem eru ágætar garðplöntur.

 

Pink flowers of Sidalcea 'Rosaly'
Sidalcea - Árublóm
 

Árublóm, Sidalcea, er ættkvísl í stokkrósarætt, Malvaceae, með heimkynni í vestanverðri N-Ameríku. Þetta eru hávaxnar plöntur sem líkjast stokkrósum, en eru fíngerðari og harðgerðari hér á landi. Þau blómstra síðsumars í bleikum, purpurarauðum og hvítum litum.

 

Silene acaulis
Silene - Hjartagrös
 

Hjartagrös, Silene, er stærsta ættkvísl hjartagrasaættar, Caryophyllaceae, með útbreiðslu um allan heim, með mestan tegundafjölda á norðurhveli. Hjartagrös vilja vera sólarmegin í  lífinu, margar lágvaxnar tegundir eru úrvals steinhæðaplöntur. Ein tegund, lambagras, vex villt á Íslandi.*

 

Soldanella montana
Soldanella - Kögurklukkur
 

Kögurklukkur, Soldanella, er lítil ættkvísl í maríulykilsætt, Primulaceae, með heimkynni í fjöllum Evrópu. Þær vaxa á rökum engjum, í skógum og grýttu fjallendi.

 

Sinopodophyllum hexandrum with dark green foliage and blush pink flower buds
Sinopodophyllum - Maíepli
 

Ættkvísl maíepla, Podophyllum, í mítursætt, Berberidaceae, hefur verið skipt upp og er nú aðeins ein tegund eftir í þeirri ættkvísl, Podophyllum peltatum, sem á heimkynni í N-Ameríku. Sinopodophyllum ættkvíslin inniheldur líka bara eina tegund, maíeplið, Sinopodphyllum hexandrum, sem vex villt í Himalayafjöllum og svæðum þar í kring.  Aðrar tegundir sem áður voru í Podophyllum ættkvíslinni eru nú í ættkvíslinni Dysosoma.

 

  • Sinopodophyllum hexandrum - maíepli

Stachys grandiflora
Stachys - Álfablóm
 

Álfablóm, Stachys, er ein af stærstu ættkvíslum varablómaættar, Lamiaceae, með 300-450 tegundir sem dreifast flestar um tempruðu beltin. Blómin standa í krönsum, oft í löngum blómskipunum. 

 

Swertia perennis
Swertia - Vendlar
 

Vendlar, Swertia, er ættkvísl í maríuvandarætt, Gentianaceae. Flestar eru fjallaplöntur sem margar hverjar vaxa í mýrum og engjum og þrífast því best í rökum jarðvegi.

 

Symphyandra wanneri
Symphyandra - Pípuklukkur
 

Pípuklukkur, Symphyandra, er lítil ættkvísl í bláklukkuætt, Campanulaceae, náskyld bláklukkum (Campanula). Flestar tegundir eru tvíærar og flestar eiga heimkynni á Balkanskaga og V-Asíu.

 

Marble Surface
bottom of page