Október er nærri liðinn og mest allt laufið fallið af trjánum. En hvað skal gera við laufið sem nú þekur allt?
Það er einstaklingsbundið hvernig fólk kýs að hirða garðinn sinn. Sumir líta á garðinn sem framlengingu af húsinu og vilja hafa hann álíka fínhreinsaðan og stofuna. Það er kannski ekki alveg raunhæft markmið, en ef fólk hefur tíma og orku til þess að skúra pallinn og sigta moldina í beðunum og það gefur þeim ánægju, þá er ekkert athugavert við það.
Frá því ég eignaðist minn fyrsta garð hef ég frekar litið á garðinn sem tengingu við náttúruna og reynt eftir bestu getu að rækta þar ekki bara plöntur heldur lífríki. Ég hef lagt áherslu á náttúrulegar línur og reynt að planta þannig að sjáist helst ekki í mold. Í náttúrunni er samfelld gróðurþekja merki um heilbrigt vistkerfi, nema kannski í eyðimörkum og melum, og það er útlitið sem ég sækist eftir að sjá. Ber mold sést bara þar sem gróðurþekjan hefur eyðst og þykir yfirleitt ekki augnayndi. Í skóglendi er skógarbotninn þakinn laufi sem botngróðurinn vex upp úr og í mínum huga er fátt fallegra.
Lífrænar plöntuleyfar eru mjög mikilvægt innihaldsefni í heilbrigðum, lifandi jarðvegi. Það er því óþarfa vinna að hreinsa laufið úr beðunum, því með því að leyfa því að brotna niður á staðnum nærir það jarðveginn og lífverurnar sem þar lifa. Ef manni finnst garðurinn ekki nógu snyrtilegur með laufþakin beð, þá er það betri kostur að setja laufið í safnkassa og dreifa svo moltunni yfir beðin, frekar en að fjarlægja það úrvals hráefni úr garðinum. Tilbúinn áburður getur bætt upp næringarefnin sem tapast, en hann bætir hvorki jarðvegsbygginguna, né eflir lífríkið í jarðveginum. Að auki þá er laufþekjan skjól fyrir plönturnar yfir vetrarmánuðina og visnaðir blómstönglar geta dregið úr líkunum á því að laufið fjúki burt.
Það er þó ekki gott að hafa laufþekju yfir grasflötum, því þegar laufið verður klesst og blautt getur það kæft grasið. Það er því best að hreinsa mest af laufinu af grasflötinni, það má þessvegna bara raka því út í næsta beð. Ef það viðrar nógu vel er hægt að fara yfir grasflötina með sláttuvélina ef hún er með hólfi til að safna grasinu í. Þá hreinsast laufið upp í leiðinni. Það er þó mikilvægt að hafa sláttuvélina í hæstu stillingu, svo grasið verði ekki of snöggslegið fyrir veturinn. Sama gildir um stéttar og palla. Laufið gerir þeim ekkert gagn, og þykk laufþekja á timburpöllum er mjög óæskileg, svo best er að sópa eða raka laufinu saman og setja í beðin eða safnkassann.
Á þessu er þó ein mikilvæg undantekning. Lauf af plöntum sem sýktar eru af sveppa- eða öðrum smitsjúkdómum ætti að hreinsa burt og henda eða brenna. Ef það er látið liggja eða sett í safnkassann getur það sýkt aðrar plöntur. Sé laufið brennt, er þó hægt að nýta öskuna sem áburð, hún inniheldur m.a. fosfór, sem er mikilvægt næringarefni fyrir allar plöntur.
Aukin sjálfbærni er góð fyrir umhverfið og í garðrækt þýðir það að flytja sem minnst að og frá garðinum og nýta það sem til fellur á staðnum eins og hægt er. Heilbrigður, lifandi jarðvegur skilar heilbrigðum og gróskumiklum plöntum og bindur meira kolefni, en lífvana jarðvegur sem alinn er á tilbúnum áburði.
Comments