top of page
Search
Writer's pictureRannveig

Draumurinn um viðhaldsfrían garð

Það er fátt sem mér finnst meira gefandi og skemmtilegt en að dunda mér í garðinum þegar veður og heilsa leyfa. Þegar veðrið er gott vil ég hvergi annarsstaðar vera. En fyrir mörgum eru garðyrkjustörfin sjálfsagt álíka leiðinleg kvöð og húsverkin eru fyrir mér. Þá dreymir um viðhaldsfrí­an garð eins og mig dreymir um viðhaldsfrítt heimili. Við vitum öll að heimilisstörfin vinna sig ekki sjálf, jafnvel þó ryksuguróbot hafi verið keyptur á heimilið. En er til viðhaldsfrír garður?


Tjörn umkringd gróðri
Náttúrulegur stíll útheimtir mun minni umhirðu en formfastr garðar

Þegar ég sé garð þar sem nánast öllum gróðri hefur verið úthýst fæ ég sting í hjartað eins og pylsukokkurinn þegar hann sér sprungna pylsu. Hellur, steinar og möl eru mjög smart, en afskaplega kuldaleg ef gróðurinn vantar. Það er margsannað að gróður í umhverfi okkar hefur afskaplega jákvæð áhrif á sálartetrið og heilsuna. Flestir hrífast meira af sældarlegum trjálundi en örfoka sandi. Svo maður tali nú ekki um allan koltvísýringinn sem gróinn garður sogar í sig. Er það endilega gefið að gróskumikill garður útheimti mikla vinnu? Eru hellur, pallar og möl viðhaldsfrí í raun? Þarf ekki að hreinsa mosa og gras úr hellunum, lauf og arfa úr mölinni og þrífa og bera á pallinn?


Villt gróðursvæði eru aftur á móti viðhaldsfrí. Þau sjá um sig sjálf. Þar þarf hvorki að klippa, grisja, bera á, tæta mosa eða reita arfa. Þó að garður geti kannski aldrei orðið algjörlega viðhaldsfrír er lykillinn að viðhaldsléttum garði e.t.v. sá að velja plöntur sem geta séð um sig sjálfar að mestu leiti. Runna sem þarf lítið að snyrta; fjölærar plöntur sem dreifa sér ekki um allt og þurfa ekki stuðning eða skiptingu á nokkurra ára fresti. Með því að nota þekjuplöntur í beð og planta þétt fær arfinn minni birtu og pláss til að dafna.


Kannski þarf grasflötin ekki að vera eins og á verðlauna golfvelli til að þjóna sem leikvöllur fyrir fjölskylduna. Grasið vex hægar ef lífrænn áburður s.s. þörungamjöl er borið á. Ef lágvaxnar grastegundir eru valdar í grasflötina þarf að slá enn sjaldnar og ef smára er sáð í grasflötina þarf engan áburð.. Ef grasið er slegið áður en það verður of hátt þarf ekki að hirða það, það hverfur ofan í svörðinn og verður að áburði. Og þarf mosinn endilega að vera vandamál? Hann er fallega grænn á veturna. Ef ræktað er gras þar sem skuggsælt er og stór tré vaxa er öruggt að mosinn nær sér á strik. Afhverju að fara í stríð við hann?


Í lok síðustu aldar, árið 1997, kom út dásamlega skemmtileg bók sem heitir Villigarðurinn - Garðyrkjuhandbók letingjans eftir Þorstein Úlfar Björnsson. Hún er frábær lesning hvort sem fólk aðhyllist svo frjálslegan stíl eða ekki, með mörgum góðum ábendingum um hvernig megi njóta garðsins í sátt við náttúruna með sem minnstri fyrirhöfn. Það er alls ekki skilyrði að verja mörgum klukkustundum á viku í að klippa, snyrta og reyta til að eiga sér gróðursælan unaðsreit. Galdurinn er að vinna með náttúrunni í stað þess að heyja stríð gegn henni og velja réttu plönturnar miðað við aðstæður.

317 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page