Vírusar herja ekki eingöngu á dýr og menn, þeir eru einnig skaðvaldar á plöntum. Sumar tegundir geta sýkt margar tegundir af plöntum á meðan aðrar eru sérhæfðari. Hostu vírus X leggst eingöngu á Hostur (brúskur). Þessi veira uppgötvaðist fyrst árið 1996 og hefur síðan breiðst hratt út og valdið töluverðu tjóni.
Þessi veira er mjög smitandi og smitast á milli plantna með plöntusafa, t.d. með menguðum áhöldum s.s. skærum, klippum og skóflum. Hreinlæti er því mjög mikilvægt ef grunur vaknar um smit. Veiran er virk í uppþornuðum plöntusafa á áhöldum í allt að þrjár vikur og því mikilvægt að skrúbba þau vel með sápu. Það er ekki nóg að leggja þau í bleyti í sápuvatn eða klór, það þarf að skrúbba með sápu. Veiran er virk í jarðvegi í nokkur ár og því má ekki planta brúsku aftur þar sem sýkt brúska óx.
Það á því miður við um alla plöntuvírusa að það er ekkert annað hægt að gera en að henda sýktum plöntum. Plönturnar hrista vírusinn ekki af sér, eins og við hristum af okkur kvefpest, sýkt planta verður alltaf sýkt og smitandi, jafnvel þó einkenni séu lítil sem engin. Ef sýkt planta er ekki fjarlægð úr garðinum getur hún smitað aðrar plöntur með menguðum garðáhöldum. Það er ekki þekkt hvort vírusinn geti smitast á milli plantna með skordýrum eða öðrum dýrum sem éta laufið, en það er ekki útilokað. Með tímanum verða sýktar plöntur mjög ljótar, en vírusinn drepur þær þó ekki.
Það er því mikilvægt að fjarlægja sýktar plöntur og henda þeim í almennt sorp. Þær mega ekki fara í safnhaug eða lífrænt sorp, því vírusinn getur þá borist með moltunni í aðrar plöntur. Best er að reyna að ná þeim upp án þess að skerða ræturnar og ef notuð er skófla þarf að þvo hana vel og skrúbba með sápu á eftir. Ekki hrista moldina af rótunum, heldur henda allri mold sem kemur með hnausnum.
Það er erfitt að greina veiruna eingöngu út frá einkennum og því eina leiðin til að ganga úr skugga um að planta sé ekki sýkt er að gera veirupróf. Það er hægt að kaupa frá fyrirtækinu Agdia Inc.
Því miður kom í ljós núna í lok sumars að fjórar sortir af brúskum sem Garðaflóra flutti inn í vor eru sýktar af HVX, þrátt fyrir að plöntuheilbrigðisvottorð hafi fylgt sendingunni. Seljandinn tekur enga ábyrgð á því að hafa selt frá sér sýktar plöntur og neitar að endurgreiða þær.
Sortirnar sem reyndust sýktar eru:
'Atlantis'
'Firnline'
'Night Before Christmas'
'Striptease'
Vinsamlegast hafið samband á gardaflora@gardaflora.is ef þið hafið keypt einhverja af þessum sortum.
Heimildir á ensku:
コメント