top of page
Search
Writer's pictureRannveig

Hvað býr í nafni?

Updated: Apr 13, 2023


Rosa foetida 'Bicolor'; orange-red rose flower, shrub rose
Gullrósin 'Bicolor' (Rosa foetida)

Íslenskan geymir mörg falleg plöntuheiti, en stundum hefur skáldlegur innblástur ráðið meiru um nafngiftina en ættfræðin og þá hafa orðið til plöntuheiti sem geta valdið misskilningi. Latneska nafnakerfið er niðurnjörfað í ættfræði og eftir því sem genarannsóknum vindur fram hefur heilu og hálfu ættunum verið sundrað og plöntur endurnefndar í samræmi við þeirra nýja stað í ættartrénu. Latnesk plöntuheiti eru efni í annan pistil, svo ég ætla ekki að fara nánar út í þau fræði hér, en þau tengjast þó þeim viðmiðunum sem höfð eru við nafngiftir plantna á íslensku. Í seinni tíð hefur verið leitast við að láta íslensk plöntuheiti endurspegla þessi ættartengsl með því að gefa tegundum innan ákveðinna ættkvísla nöfn með sömu endingu, t.d. heita allar bláklukkutegundir nöfnum sem enda á -klukka. Þetta er þó ekki algilt því fjölmörg íslensk plöntuheiti urðu til löngu áður en þessi vinnuregla náði fótfestu og því eru fjölmörg eldri plöntuheiti á íslensku sem falla ekki að ættfræðinni. Nýlegar breytingar sem orðið hafa á skipan plantna í ættkvíslir og ættir hafa einnig haft það í för með sér að nokkrar plöntur tilheyra nú öðrum ættkvíslum en íslenska heiti þeirra gefur til kynna.


Það eru fáar plöntur sem eru jafn elskaðar og dáðar og rósirnar og því kannski eðlilegt að rósin hafi veitt mönnum innblástur þegar nefna skyldi fallegar plöntur. Það eru því fjölmargar plöntur sem bera íslenskt heiti sem endar á -rós, þó þær séu alls ekki rósir.



Hinar sönnu rósir

Rósin 'Troika' er terósablendingur

Rósir tilheyra allar sömu ættkvíslinni, Rosa, í rósaætt. Rósaættin er mjög stór og fjölmargar vinsælar garðplöntur, sem ekki eru rósir, tilheyra henni, t.d. reynitré (Sorbus), eplatré (Malus), jarðarber (Fragaria) og ættkvíslin Prunus, sem inniheldur fjölmargar ávaxtategundir s.s. ferskjur, plómur, kirsuber, apríkósur og möndlur. Allar rósir eru runnkenndar, þ.e. þær hafa trénaða stöngla sem visna ekki niður yfir veturinn. Þær geta verið með fjölbreyttu vaxtarlagi, frá mjög stórgerðum runnum allt að 3-5 m á hæð niður í jarðlæga þekjurunna og greinarnar eru alltaf þyrnóttar, þó misjafnlega mikið. Blóm rósa eru með fimm krónublöðum eins og blóm annarra tegunda í rósaætt, en meirihluti garðrósa eru með fyllt eða hálffyllt blóm. Þegar talað er um rósir, eru það líklega þokkafull blóm terósablendinganna sem flestir sjá fyrir sér, sem eru þær rósir sem seldar eru sem afskorin blóm.



Að heita rós, án þess að vera rós


Þá eru það rósirnar sem heita rós án þess að vera rósir, bæði heilu ættkvíslirnar og einstaka plöntur í íslensku flórunni. Það eru þrjár ættkvíslir sem hafa hlotið rósarheiti og þær eiga það allar sameiginlegt að bera stórglæsileg, litskrúðug blóm.


Bóndarósir

Paeonia 'Festiva Maxima'; Peony flower; pale pink flower
Silkibóndarósin 'Festiva Maxima'

Bóndarósir tilheyra ættkvíslinni Paeonia sem er eina ættkvíslin í bóndarósaætt. Flestar bóndarósir eru fjölærar plöntur sem visna niður að vetri og vaxa upp aftur að vori. Þó eru til runnkenndar bóndarósir, svokallaðar trjábóndarósir sem mynda trénaða stöngla. Þær eru á mörkum þess að þrífast hér á landi, en þó eru örfá dæmi um trjábóndarósir sem vaxa utandyra á Íslandi. Bóndarósir sem eru ræktaðar í görðum eru langflestar með fyllt blóm.



Lyngrósir

Rhododendron 'Fantastica', pink Rhododendron flowers, Rhododendron bush
Lyngrósin 'Fantastica'

Lyngrósir tilheyra ættkvíslinni Rhododendron í lyngætt og því væri réttara að kallar þær róslyng en lyngrósir, en lyngrósanafnið er orðið það fast í sessi að því verður varla breytt. Þetta eru runnar með sígrænu laufi sem geta náð feiknastærð í hlýrra loftslagi, en eru töluvert nettari hér á landi, þó sumar sortir geti orðið nokkuð myndarlegir runnar. Blómin eru nokkuð stór í hvelfdum blómklösum og geta verið í öllum litbrigðum að bláum undanskildum. Þær eru mjög skrautlegar á meðan þær standa í blóma frá síðari hluta maí og frameftir júnímánuði.



Alparósir

Alparósir tilheyra líka Rhododendron ættkvíslinni, en heitið er oftast notað yfir þann hluta ættkvíslarinnar sem er lauffellandi (Azaelia). Hér á landi nær þetta heiti oftast yfir smávaxin afbrigði sem ræktuð eru sem pottaplöntur.





Þessar tvær tegundir eru báðar runnar og tilheyra Hibiscus ættkvíslinni í stokkrósarætt, en aðrar tegundir ættkvíslarinnar hafa ekki verið kenndar við rósir. Havaírósin (Hibiscus rosa-sinensis) er ræktuð sem stofublóm hér á landi og eins og nafnið bendir til, vex hún á mjög suðlægum slóðum og þolir alls ekki að frjósa. Sýrlandsrósin (Hibiscus syriacus) er töluvert harðgerðari og þolir töluvert frost (niður í ca. -28°C) og er því ræktuð á norðlægari slóðum en havaírósin. Hún þarf þó mjög mikinn sumarhita, svo hún gæti ekki vaxið hér á landi nema kannski í sólríku gróðurhúsi eða garðskála.


Íslenska flóran


Í íslensku flórunni eru þrjár plöntur sem bera nafnið rós þó þær séu ekki rósir.




Engjarós er votlendisplanta sem er algeng um allt land. Hún er skyldust rósum af þeim plöntum sem hér eru taldar upp, því hún tilheyrir rósaætt. Hún var áður í ættkvísl mura (Potentilla), en tilheyrir nú ættkvíslinni Comarum. Blóm hennar hafa engin krónublöð, en bæði bikarblöð og fræflar eru dumbrauð.



Eyrarrós

Chamaenerion latifolium, river beauty willowherb, dwarf fireweed, eyrarrós, Iceland flora
Eyrarrós á grónum árbakka í Þjársárdal


Eyrarrós tilheyrir eyrarrósarætt og vex á áreyrum þar sem hún getur myndað stórar breiður af skærbleikum blómum í byrjun ágúst. Hún setur því mikinn svip á umhverfið þar sem hún vex, þar sem bleikar breiðurnar skapa skarpa andstæðu við hrjóstrugt landslagið.

Chamaenerion latifolium, river beauty willowherb, dwarf fireweed, eyrarrós, Iceland flora, Iceland nature, glacial river, Eiríksjökull glacier
Hvítá við Húsafell - eyrarrósarbreiður í fjarska.



Þúsundblaðarós er burknategund skyld fjöllaufungi sem er með enn fínskiptara laufi en hann. Hún er sjaldgæf á Íslandi og vex eingöngu á stöðum sem huldir eru snjó yfir veturinn og lengi fram á vorið. Hún er því sjaldan ræktuð í görðum.










286 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page