- Latnesk plöntuheiti eru ekki eins flókin og þau virðast í fyrstu
Hér á vefsíðu Garðaflóru er plöntum raðað í stafrófsröð eftir latneskum heitum, en ekki íslenskum. Sumum kann að þykja það undarlegt að Latínan standi framar Íslenskunni á íslenskri plöntusíðu, en það er þó ekki neitt Latínu-snobb sem veldur því. Almenn plöntuheiti geta valdið ruglingi, bæði á íslensku og á öðrum tungumálum. Oft eru til nokkur heiti yfir sömu plöntuna, eða sama heiti hefur verið notað á sitthvora plöntuna. Þegar fólk talar t.d. um silfurhnapp er ekki endilega ljóst hvort um er að ræða sóleyjategundina Ranunculus aconitifolius 'Flore Pleno' eða vallhumalstegundina Achillea ptarmica, því heitið silfurhnappur hefur verið notað um báðar tegundir, þó það sé bara viðurkennt heiti á síðarnefndu tegundinni. Latnesk heiti eru aftur á móti einstök fyrir hverja tegund, þ.e. tvær tegundir geta ekki haft sama heitið. Það eru dæmi um að latnesku heiti plöntu hafi verið breytt þegar nýjar upplýsingar um skyldleika koma fram og plantan er færð í aðra ættkvísl, en bæði gamla og nýja heitið eru eftir sem áður einkennandi fyrir þá tilteknu plöntutegund. Latnesk heiti eru líka alþjóðleg sem þýðir að þau eru þekkt hvar sem er í heiminum. Ef latneska heiti plöntunnar er þekkt er hægt að leita sér upplýsinga á netinu á hvaða tungumáli sem er og finna fræ á erlendum vefsíðum. Þar að auki eru latnesk plöntuheiti hluti af flokkunarkerfi sem nær ekki bara yfir plöntur, heldur allt lífríkið, og þau gefa því ekki bara upplýsingar um hvað plantan heitir, heldur líka hvernig hún tengist öðrum skyldum tegundum.
Það var hinn sænski Carl von Linné (fæddur Carl Linnaeus) sem á 18. öld mótaði það flokkunarkerfi sem enn er notað í dag fyrir allar lifandi verur. Hann þróaði kerfið upphaflega til að skrásetja plöntur, en útvíkkaði það síðar til að skrásetja dýrategundir líka. Þetta kerfi byggir á því að flokka saman skyldar tegundir í ættkvíslir, skyldar ættkvíslir í ættir, skyldar ættir í ættbálka o.s.frv. Hann kom einnig fram með tvínafnakerfið sem notað er til að nefna allar lifandi verur. Þetta kerfi hefur haldist í grunninn til dagsins í dag, en hefur þróast með aukinni þekkingu á skyldleika tegunda og hefur t.d. orðið mikil uppstokkun á ættkvíslum og ættum á undanförnum árum með tilkomu aukinna genarannsókna.
Latnesk plöntuheiti: Tvínefni - ættkvísl og tegund
Tvínefnin eru samsett úr tveimur hlutum, fyrri hlutinn er heiti ættkvíslarinnar sem plantan tilheyrir og er alltaf skrifaður með stórum staf. Það mætti hugsa það sem einskonar ættarnafn. Seinni hlutinn, tegundaheitið, er heiti sem er á einhvern hátt lýsandi fyrir tiltekna tegund og vísar oft í útlitseinkenni eða búsvæði plöntunnar.
Tökum dæmi. Sóleyjaætt - Ranunculaceae er stór ætt með fjölmargar ættkvíslir vinsælla garðplantna. Sem dæmi má nefna vatnsbera - Aquilegia, riddaraspora - Delphinium, fösturósir - Helleborus, sóleyjar - Ranunculus, bláhjálma - Aconitum og bergsóleyjar - Clematis. Þrátt fyrir að riddarasporar og vatnsberar líkist ekki mikið sóleyjum svona fljótt á litið, þá eiga allar ættkvíslir sem tilheyra þessari ætt það sameiginlegt að vera dulítið eitraðar, sumar mjög mikið eitraðar (Bláhjálmar). Flestar eru jurtkenndar, bergsóleyjar eru þar undantekning, og á flestum tegundum eru blómin litrík bikarblöð, en ekki krónublöð og margar tegundir eru með djúpflipótt lauf.
Allar tegundir sem heita Aquilegia tilheyra því sömu ættkvísl, þær eru allar með blóm með litrík bikarblöð, krónublöð með hunangssporum og þrískiptu laufi með rúnnuðum smáblöðum. Skógarvatnsberi, Aquilegia vulgaris, ber tegundaheitið vulgaris, sem þýðir venjulegur eða algengur, enda er skógarvatnsberi útbreidd tegund í Evrópu. Þetta er nokkuð algengt tegundaheiti t.d. heitir laufeyjarlykill, Primula vulgaris. Það að plöntur hafi sama tegundaheiti tengir þær ekki á nokkurn hátt, það þýðir bara að þeim sem nefndi þær fannst þetta heiti lýsandi fyrir tegundina. Í tilviki skógarvatnsbera og laufeyjarlykils, eru þær báðar algengar, útbreiddar tegundir á sínum útbreiðslusvæðum í Evrópu. Önnur dæmi um tegundir með tegundaheitið vulgaris eru rauðrófur, Beta vulgaris og beitilyng, Calluna vulgaris.
Undirtegundir, afbrigði og sortir
Stundum er það greinilegur breytileiki innan ákveðinna tegunda, oft á aðskildum landsvæðum, að mismunandi undirtegundir eru skilgreindar af sömu tegundinni. Undirtegundarheitið kemur fyrir aftan tvínefnið með skammstöfuninni subsp. eða ssp. fyrir framan. Undirtegundaheitið, eins og tegundaheitið, er valið til að lýsa einhverjum eiginleika undirtegundarinnar. Dæmi um þetta eru alpabjalla og glóbjalla sem báðar tilheyra tegundinni Pulsatilla alpina. Alpabjalla er Pulsatilla alpina ssp. alpina. Hún hefur hvít blóm og vex í kalkríkum jarðvegi í fjöllum Mið- og Suður-Evrópu. Glóbjalla er Pulsatilla alpina ssp. apiifolia. Hún hefur brennisteinsgul blóm og vex í frekar súrum jarðvegi á svipuðum slóðum.
Afbrigði er náttúrulegur breytileiki frá tegundinni sem finnst í náttúrunni, oft annar blómlitur, lauflitur, mismunandi hært lauf o.s.frv.. Heiti afbrigðis kemur þá á eftir tvínefninu með skammstöfuninni var. fyrir framan. Dæmi um þetta er engjaíris, Iris setosa. Lágvaxið afbrigði hennar, með ljósari og flatari blómum, var. arctica, vex villt á freðmýrum Alaska og Síberíu.
Sort eða kvæmi, er ræktuð planta fengin með kynblöndun, hvort heldur sem er af mannavöldum eða af völdum iðinna býflugna. Sortarheiti geta verið á hvaða tungumáli sem er, oft reyna ræktendur að velja nafn sem lokkar kaupendur til að kaupa hina nýju sort. Sortarheiti eru skrifuð með stórum staf og innan einfaldra gæsalappa. Þegar um rósasortir er að ræða eru stundum fleiri en eitt heiti yfir sortina, ef hún hefur verið markaðssett í fleiri löndum, t.d. rósin 'Duftwolke' sem heitir 'Fragrant Cloud' í enskumælandi löndum. Oft þegar um mikið kynblandaðar sortir er að ræða eru þær ekki kenndar við neina ákveðna tegund, heldur bara ættkvíslarheiti, t.d. Rosa 'Fragrant Cloud'.
Dæmi um algeng tegundaheiti:
Litir alba /albus – hvítur caerulea /caeruleus – blár coccinea /coccineus – rauður argentea – silfurlitaður
Búsvæði alpina /alpinus – háfjalla arctica - heimskauta
campestris – akur maritima – strönd montana – fjall pratensis – engi sylvatica – skóglendi
Eiginleikar angustifolia – mjótt lauf fragans/fragrantissima – ilmandi foetida/foetidus – illa lyktandi grandiflora – stór blóm nana – lítill, smár odorata – ilmandi officinalis – lækningajurt tomentosum – hærður
vulgaris - venjulegur, algengur
Vaxtarlag columnaris – súlulaga dentata – tenntur fruticosa – runnkenndur gracilis – mjósleginn reptans – skríðandi scandens – klifrandi
Uppruni chinensis – Kína japonica – Japan sibiricus – Síberia occidentalis – Ameríka orientalis – Asía
Comentários