top of page
Search
Writer's pictureRannveig

Inngangur

Updated: Apr 13, 2023

Garðrækt á Íslandi og tilurð Garðaflóru

July evening at 11:30 pm

Loftslagið hér á Íslandi er um margt einstakt. Þar sem Ísland er staðsett úti í miðju Norður-Atlantshafi er loftslagið svalt úthafsloftslag, sem einkennist af mildum vetrum og svölum sumrum. Þó veturnir séu mildir, eru þeir samt mjög langir og sumrin eru stutt og einstaklega svöl. Þessi skilyrði eru mjög takmarkandi þáttur í því hvaða garðplöntur hægt er að rækta hér á landi. Þær eru þó fleiri en ætla mætti og garðyrkjufólk hér, eins og víðar, er stöðugt að prófa sig áfram með nýjar plöntur. Það er erfitt að áætla harðgerði plantna hér á landi út frá erlendum harðgerðiskvörðum þar sem þeir miða oftast við lágmarks hitastig sem plantan þolir, en það er almennt séð ekki takmarkandi þátturinn við ræktun hérlendis. Samkvæmt bandaríska harðgerðiskvarðanum er Ísland t.d. zone 7, en sumarhiti er þó nær því sem gerist í zone 2. Það eru stuttu svölu sumrin, þar sem hitastig nær varla 20°C, sem eru takmarkandi þátturinn hér, því margar plöntur þurfa lengra og hlýrra vaxtartímabil til að búa sig fyrir veturinn, sem hér á landi er yfirleitt um 9 mánuðir.


Saga garðræktar á Íslandi er ekki löng. Öldum saman voru það viðurkennd sannindi að hér væri ekki hægt að rækta neitt, nema þá kannski kartöflur og rófur. Það þurfti danskan lækni að nafni Schierbeck, til að afsanna þessa trú. Hann fluttist til Íslands síðla hausts 1882 og var settur landlæknir 1883. Hann var mikill garðyrkjuáhugamaður og varð fyrstur til að prófa kerfisbundið fjölda plantna til að komast að því hvað væri hægt að rækta hér.


Þessi vinna Schierbecks var undirstaðan að garðrækt á Íslandi. Hann lagði mesta áherslu á ræktun grænmetis, þar sem hann taldi að það væri mikilvægt fyrir heilsu þjóðarinnar að hafa aðgang að fjölbreyttu úrvali grænmetis. En hann prófaði líka fjölda skrautplantna sem síðan hafa vaxið í mörgum íslenskum görðum. Garðurinn hans fór fljótt að vekja athygli heimamanna sem undruðust árangur læknisins í ræktun fjölbreyttra plantna í þessu ómögulega loftslagi. Það sem hafði úrslitaáhrif á velgengni hans var það að hann gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að útbúa skjól frá hinum eilífa vindi sem blæs hér. Hann reisti því vegg í kringum garðinn, að hluta til til að uppfylla skilyrði yfirvalda, en fyrst og fremst til að mynda skjól. Árið 1885 var Hið íslenska garðyrkjufélag stofnað. Schierbeck átti stóran þátt í stofnun þess og var formaður félagsins fyrstu sjö árin. Það heitir nú Garðyrkjufélag Íslands.


Skilyrði til ræktunar hér á höfuðborgarsvæðinu hafa batnað mikið á síðustu 30 árum eftir því sem trjágróður í einkagörðum hefur vaxið og þar með veitt aukið skjól. Þar sem trjágróður er mikill þrífast mun fleiri tegundir plantna, en þar sem skjól er lítið eða ekkert. Í fyrstu var farið varlega af stað og trjáhríslum plantað undir húsveggi til að þær hefðu sem besta möguleika á því að vaxa og dafna. Því eru mörg stór og stæðileg tré sem vaxa þétt upp við húsveggi eldri húsa í dag. Síðar komu til harðgerðar plöntur sem hægt var að nota í skjólbelti og trjáræktin færðist frá húsveggjum. Nú amast fólk yfir skugganum frá þessum gömlu trjám, en það vill gleymast hversu þýðingarmikið skjólið er sem þau veita.


Ég hef haft brennandi áhuga á gróðri og garðrækt síðan ég var lítil. Bæði settin mín af ömmum og öfum áttu fallega garða og ég naut þess að fá að hjálpa til við garðvinnuna og dást að blómskrúðinu þegar ég heimsótti þau. Síðan ég eignaðist minn fyrsta garð hef ég verið nokkuð afkastamikill plöntusafnari og áhugasöm að prófa mig áfram með nýjar plöntur.


Ég flutti í núverandi húsnæði árið 2013 og flutti með mér allt sem hægt var að flytja af plöntusafninu mínu. Nýi garðurinn er rúmir 1000 fm og hafði verið í algjörri órækt í nokkurn tíma þegar við fluttum. Það hefur verið mikil vinna að koma böndum á óræktina og enn er töluvert mikið verk óunnið. Þökk sé minni plöntusöfnunaráráttu er hann þó ört að fyllast af plöntum. Það er því ljóst að garðurinn minn, þó stór sé, muni ekki rúma allar þær plöntur sem mögulega geta þrifist hér á landi og því er markmiðið með þessari vefsíðu að fá fleiri garðeigendur til að deila sinni reynslu af ræktun plantna hér á landi.





Nánar má fræðast um merkan feril Schierbeck landlæknis hér.

379 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page