Fyrir jólin 2014 keypti ég blandað grenibúnt eins og venjan hefur verið fyrir hver jól. Það sem fangaði athygli mína að þessu sinni var að á meðal hefðbundins grenis og sýpruss var grein af einhverri óþekktri tegund með mjög sérstökum könglum.
Þar sem mér fannst þetta alveg sérdeilis flott grein og köngarnir ekki síðri, ákvað ég að athuga hvort einhver fræ leyndust í könglunum. Tókst mér að hrista nokkur fræ fram sem voru tafarlaust drifin í mold. Nú vandaðist málið því ég hafði ekki hugmynd um hvaða tegund þetta væri og þ.a.l. engan grun um hvernig ég ætti að fá fræið til að spíra. Lagðist ég því í mikla leit á netinu sem var ekki auðsótt þar sem ég vissi bara að þetta var sígræn tegund. Mér tókst þó eftir mikla leit að komast að þeirri niðurstöðu að þetta væri líklega sígrænn runni sem vex á Tasmaníu og að fræið þyrfti engar sérstakar serimóníur til að spíra.
Það stóðst og ekki leið á löngu þar til lítil spíra leit dagsins ljós. Því miður urðu þær ekki fleiri og var því farið með litla angann eins og fjöregg. Hann var geymdur undir akrýldúk veturinn 2015/2016 og lifði það af, svo sumarið 2016 hætti ég á að planta honum út í upphækkað beð á besta stað í garðinum. Ekki reyndi nú mikið á vetrarþol hans þann veturinn, enda veturinn 2016/2017 með mildustu vetrum hér á höfuðborgarsvæðinu. Hann var ekki hár í loftinu vorið 2017 og ryðbrúnn á lit svo ég var nú ekki viss hvort hann væri lífs eða liðinn. En hann tók við sér þegar hlýna tók og bætti nokkuð við sig í sumar, þó enn sé hann ekki hár í loftinu.
Veturinn 2016-2017 eignaðist ég bókina Tré og runnar í litum eftir Ingólf Davíðsson og Verner Hancke sem gefin var út 1962. Þegar ég var að fletta í henni um sumarið rak ég augun í jólagreinina mína, sem mér til nokkurra vonbrigða, var ekki King Billy Pine (Athrotaxis selaginoides) frá Tasmaníu, heldur hindartré - Cryptomeria japonica frá Japan. Hindartré er eina tegund ættkvíslarinnar Cryptomeria og er stórvaxið tré sem getur náð 70 m hæð í heimkynnum sínum. Það er nú ekki þekkt fyrir mikið kuldaþol svo það leit ekki gæfulega út fyrir litla angann. Veturinn 2017-2018 var mjög erfiður og ýmislegt sem tapaðist þann vetur, þar á meðal litli hindartrés anginn minn.
Comments