Abies concolor
Hvítþinur
Þallarætt
Pinaceae
Hæð
um 10 - 20 m
Blómlitur
gulgrænn
Blómgun
júní
Blómgerð
berfrævingur
Aldin
könglar
Lauflitur
blágrænn
Birtuskilyrði
sól - hálfskuggi
Jarðvegur
vel framræstur, frjór, sendinn
pH
veik súrt
Harðgerði
þarf frekar skjólgóðan stað, þrífst þá vel
Heimkynni
vestanverð N-Ameríka
Ættkvíslin Abies tilheyrir þallarætt, Pinaceae. Þetta eru stórvaxin tré, með heimkynni í fjalllendi víða á norðurhveli jarðar. Helsta einkenni ættkvíslarinnar er mjúkt barr sem vísar upp frá greinunum. Þinir eru skuggþolnir og nægjusamir. Flestar tegundir vaxa á stöðum þar sem meginlandsloftslag er ríkjandi og því geta vetrarumhleypingar valdið skemmdum á nýjum sprotum.
Fjölgun:
Sáning - þarf kaldörvun, best sáð um miðjan nóvember
Fræ lagt í bleyti í 24 klst og síðan blandað rökum vikri og geymt í rennilásapoka í ísskáp í 6-8 vikur. Að þeim tíma loknum er fræinu sáð í sáningarbox, hulið með þunnu lagi af vikri og haft við stofuhita fram að spírun.
Hvítþinur er sígrænt tré sem getur orðið 10 - 20 m á hæð hér á landi, en hægt er að stýra vextinum með klippingu. Barrið er langt og mjúkt, blágrænt á lit og uppsveigt eins og á öðrum þintegundum. Hann þrífst best á skjólgóðum stað og getur kalið ef það næðir of mikið um hann. Hann þolir nokkurn skugga og vex best í veiksúrum, vel framræstum, frjóum jarðvegi.